21/12/2023
Takk Ragga Nagli - skemmtileg og skynsamleg nálgun.
VIljum einmitt meina að við leggjum inn hjá okkur sjálfum í flotmeðferð.
Erum líka með gjafakort handa okkar nánustu fyrir jólin.
Hugsaðu um líkamann þinn og heilann eins og bókhaldið.
Líkaminn hefur úr takmörkuðu úrvali af auðlindum að ráða í formi af glúkósa, taugaboðefnum og súrefni.
Taugaboðefni eins og dópamín og serótónín veita okkur vellíðan, stýra skapinu og hafa áhrif á okkar félagshegðun.
Hormón eins og adrenalín og kortisól gera okkur meira vakandi og tilbúin til að berjast eða flýja.
Ef við spænum þessar auðlindir upp með streituvaldandi aðstæðum eða hugsunum, þá stýra adrenalín og kortisól að heilinn og vöðvar að mergsjúga upp glúkósa, hjarta og -æðakerfið að nota haug af súrefni með grynnri öndun og hraðari hjartslætti.
Það þýðir skort í bókhaldinu fyrir önnur kerfi líkamans.
Sem getur haft áhrif á tilfinningar og hegðun.
Þegar glúkósabirgðirnar eru niðri í kjallara þá upplifum við þreytu og orkuleysi. Það leiðir oft til að við erum í engu stuði til að gera leiðinlega og erfiða hluti. Sem leiðir til frestunaráráttu.
Þegar batteríið er bara örfá prósent eftir þá höfum við núll nennu í sósjal lífið sem leiðir oft til félagslegrar einangrunar.
Ef framheilinn er sveltur af glúkósa því hann er allur að fara í vöðvana í bullandi streituástandi þá tökum við oft frekar hvatvísar ákvarðanir og tilfinningastjórnun er oft í frostmarki.
Það þýðir að við bregðumst harkalega við, þráðurinn er stuttur og heimilisfólk þarf að labba á eggjaskurnum á sokkaleistunum í kringum okkur.
Þegar framheilinn fær ekki fóðrun veljum við frekar athafnir sem veita okkur velíðan hér og nú í staðinn fyrir langtíma ágóða. Eins og að skrolla instagrammið í staðinn fyrir að skrifa skýrslu í vinnunni.
Þreytt. Svöng. Pirruð. Streitt og tætt. Allt hefur áhrif á bankareikninginn í heila og skrokki.
🟢 Hvað leggur inn á reikninginn. Hvað eru Debet færslur.
🟢 Dúndur svefn í 7-9 tíma á nóttu yfir margar nætur.
🟢 Gæðastundir með ástvinum í kjötheimum. Ekki skilaboð á Messenger.
🟢 Hollt mataræði af heilum óunnum afurðum. Reglulegar máltíðir. Nóg af prótíni.
🟢 Að gera eitthvað skemmtilegt og gefandi á hverjum degi.
🟢 Taka reglulegar pásur yfir vinnudaginn til að gefa heilanum hvíld.
🟢 Hreyfing í hóflegu magni sem við getum jafnað okkur á.
🟢 Að gera góðverk fyrir náungann.
Hvað er eyðsla og óráðsía. Kreditfærslur.
🔴Vinna of mikið og langt frameftir kvöldi tætir upp framheilavirknina.
🔴 Ofþjálfun.Erfiðar langar æfingar sem baða okkur í kortisóli.
🔴 Að borða sjaldan og of lítið. Að sleikja sultarbríkina af hungri.
🔴 Slurka kaffi og orkudrykki í lítravís.
🔴 Sofa stutt og illa.
🔴 Langvarandi streita.
🔴 Hangs í símanum og tölvunni langt frameftir kvöldi.
🔴 Vera aleinn, hitta ekki hræðu og svelta félagstaugina.
🔴 Tæta sjálfið niður í neikvæðu sjálfstali.
🔴 Áfengisdrykkja og djamm í óhóflegu magni.
🔴 Rifrildi og ágreiningur.
Hvenær þurfum við að borga skatt af hegðuninni?
Hvað kostar þessi æfing mig? Er hún of erfið? Mun ég vera eins og slytti það sem eftir lifir dags?
Er þetta æfingaprógramm að gera mig sterkari og betri, eða þreyttari og tættari?
Það besta fyrir taugakerfið eru aðrar manneskjur, en aðrar manneskjur eru líka það versta fyrir taugakerfið.
Munu þessi samskipti skilja eftir sig vondar tilfinningar þegar ég fer að sofa í kvöld og láta mig veltast um klukkan þrjú í bullandi pirringi?
Mun þetta djamm kosta mig móral, þreytu og þynnku langt frameftir vikunni?
Munu þessar föstur hafa áhrif á hormónakerfið mitt og valda óþarfa streitu í líkamanum?
Er þetta hangs mitt fram á kvöld yfir Netflix að stuðla að síþreytu, kvíða, depurð og stuttum spuna?
Hvenær verðum við gjaldþrota?
Þegar það er ekki lengur innistæða. Við erum komin í bullandi yfirdrátt á reikningnum. Búin að tæma alla sjóði.
Þá mætir kulnun á staðinn með löngutöng á báðum og grýtir okkur niður í gólfið.
Fólk í kulnun upplifir oft að allar hreyfingar verða hægari og erfiðari, ákvarðanir eru vonlaust verkefni því bæði líkami og heili eru þurrausin af auðlindum eftir langan tíma í yfirdrætti.
Skoðaðu vel hvort þú sért að leggja nógu mikið inn með góðum gjörðum eða hvort þú sért í bullandi kredit og hvort skattþrepið sé mögulega of hátt.
Hverjar eru þínar debetfærslur sem dúlla við taugakerfið?
👇👇👇