03/11/2025
Kreatín!
Ég fæ að deila þessum frábæra pistli hennar Írisar vinkonu minnar, sem er eigandi og þjálfari í Primal Iceland. Það er svo mikil umræða um kreatín þessa dagana og kosti þessi. Ég er nýfarin að taka það inn og finn töluverðan mun (yfirleitt finn ég ekki mikinn mun þegar ég tek bætiefni). Bæði finn ég meiri orku og úthald á æfingum og eins er svefninn betri! Njótið vel.....
Ég þreytist ekki á því að gera tilraunir með hitt og þetta þegar kemur að heilsunni. Mig langar að vekja áhuga ykkar á því að prófa ykkur áfram með allskonar, í þeim tilgangi að bæta líðan, svefngæði, frammistöðu, andlega skerpu, orku ofl ofl.
Ég t.a.m. sef með munnplástur sem ýtir undir neföndun í svefni og stuðlar að aukinni slökun og bættum svefngæðum, ég horfi á sjónvarp á kvöldin með „blue light blokker“ gleraugu m.a. til þess að sjónvarpsglápið hægi ekki á náttúrulegri framleiðslu melatónins og ég sef á „grounding laki“. (mjög skiptar skoðanir á slíkri jarðtengingu EN mér er sama hvaðan gott kemur og er alltaf til að prófa)
Ég deildi fyrir stuttu þeim vítamínum sem ég nota dags daglega – hægt að sjá neðar á síðunni og þar fremst í flokki fyrir utan D-vítamínið góða, er Shilajit.
Nýverið bætti ég inn í rútínuna mína öðru efni, og ég er ekki frá því að það sé orðið mitt nýja uppáhald. Ég hafði lengi gllímt við vöðvaverki í lærum eftir æfingar sem raskaði svefninn minn. Eftir að hafa tekið þetta inn daglega í ca 2 mánuði finn ég mun á endurheimt eftir æfingar, vöðvaverkir farnir og ég upplifi mig skýrari í kollinum.
Þetta efni heitir kreatín og er víst nauðsynlegt fyrir konur og ekki síst konur á mínum/okkar aldri – rétt fyrir eða í kringum breytingaskeiðs-aldurinn. Ég tók saman punkta um kreatín fyrir ykkur til þess að lesa sem byggðar eru á rannsóknum en kreatín er eitt mest rannsakaða fæðubótaefnið í dag.
Ég var föst í gömlu mýtunni að kreatín væri bara fyrir karlmenn og myndi stuðla að þyngdaraukningu en svo er víst ekki.
Kíkið yfir punktana og kynnið ykkur málið. Verið forvitnar og prófið ykkur áfram.
Það er svo gaman þegar maður finnur mun og líður betur!
Ekki satt? 😊
Kreatín fyrir konur - af hverju?
1. Vinnur gegn vöðvatapi: Kreatín getur hjálpað til við að varðveita og auka vöðvamassa. Sýnt hefur verið fram á að kreatínuppbót eykur styrk og afköst á æfingum, sem getur minnkað með tímanum og við eða í kringum tíðahvörf.
2. Kreatín ásamt styrktarþjálfun, getur hjálpað til við að bæta beinþéttni, draga úr hættu á beinþynningu (algengt áhyggjuefni hjá konum eftir tíðahvörf.)
3. Kreatín styður heilsu heilans með því að auka orkugjafa til heilafrumna, hugsanlega bæta minni og vitræna virkni. Verndar gegn vitrænni hnignun: Sumar rannsóknir benda til þess að kreatín geti hjálpað til við að berjast gegn aldurstengdum vitrænum vandamálum og bæta andlegan skýrleika.
4. Kreatín eykur orku. Með því að auka ATP (adenósín þrífosfat) aðgengi getur kreatín hjálpað til við að draga úr þreytu, sem er algengt einkenni fyrir eða í kringum tíðahvörf. Kreatín eykur einnig endurheimt eftir æfingar.
5. Kreatín getur hjálpað til við að draga úr skapsveiflum eða þunglyndiseinkennum sem oft tengjast tíðahvörfum.
6. Kreatín getur aukið insúlínnæmi og glúkósastjórnun. Kreatín hjálpar til við að viðhalda vöðvamassa og getur því aðstoðað við þyngdarstjórnun.
7. Nýjar vísbendingar benda til þess að kreatín geti bætt starfsemi æðaþels (slímhúð æða), sem styður hjarta- og æðaheilbrigði hjá konum eftir tíðahvörf.
8. Kreatín getur haft bólgueyðandi eiginleika, sem gæti dregið úr liðverkjum og stirðleika.
9. Kreatín styður við betri frammistöðu í þolþjálfun og loftfirrtri hreyfingu (sprettum oþh). Kreatín stuðlar einnig að hraðari bata eftir líkamlega áreynslu, sem er mikilvægt til að viðhalda reglulegri æfingarrútínu.
10. Með því að styðja við vöðva-, beina-, heila- og efnaskiptaheilbrigði hjálpar kreatín konum í kringum eða eftir tíðahvörf að viðhalda orku og lífsgæðum.
Venjulega er mælt með 3-5 grömm á dag.
Kreatín er vel rannsakað og talið öruggt fyrir flesta, en þeir sem eru með nýrnavandamál ættu að nota það með varúð eða undir eftirliti læknis.