
13/09/2025
Joð – vinur eða óvinur skjaldkirtilsins?
Það er skiljanlegt að margir verði forvitnir um joð, sérstaklega þegar þeir heyra sögur af fólki sem segist hafa náð betra jafnvægi með því að bæta joði inn. Joð er nauðsynlegt fyrir skjaldkirtilinn en það er líka tvíeggjað sverð.
👉 Of lítið joð getur valdið skjaldkirtilsvanda.
👉 Of mikið joð getur kveikt á sjálfsofnæmi, gert ofvirkni verri eða valdið ofstarfsemi hjá þeim sem áður voru í jafnvægi. Þetta kallast Jod-Basedow áhrif og getur komið eftir joðríka skuggaefnisrannsókn, fæðubótarefni eða lyf sem innihalda joð.
⚠️ Algeng mýta: Að bera joð á húðina og sjá hversu fljótt það hverfur er ekki áreiðanleg leið til að meta joðskort. Húðin er ekki mælitæki öruggar leiðir til að kanna joðstöðu eru blóð- eða þvagprufur.
📌 Staðan á Íslandi:
• Aðaluppsprettur joðs í fæðunni er fiskur, mjólk, mjólkurafurðir og egg ekki saltið sem við notum, þar sem það er yfirleitt ekki joðbætt.
• Joðneysla Íslendinga hefur dregist saman síðustu ár, meðal annars vegna minni fiskneyslu og breyttra matarvenja.
• Ungar konur og sérstaklega barnshafandi konur þurfa að huga að joðinntöku því skortur getur haft slæm áhrif á þroska fósturs og heilaþroska barns.
Það sem virkar fyrir einn getur verið skaðlegt fyrir annan. Þess vegna leggja sérfræðingar áherslu á að mæla joðstöðu einstaklings, fylgjast með í blóðprufum og stilla meðferð af í stað þess að allir prófi hið sama.
🦋 Í stuttu máli: Joð er mikilvægt en það þarf að nálgast það með varúð og eftirliti. Það er ekki skyndilausn sem hentar öllum og getur jafnvel gert illt verra hjá sumum. 🦋.
Heimildir:
1. Gunnarsdóttir I. Iodine intake and status in Iceland through a period of 60 years. Food & Nutrition Research (2009) – Fiskur og mjólkurvara eru helstu joðuppsprettur á Íslandi og joðbætt salt er ekki almennt notað. 
2. Adalsteinsdóttir S. o.fl. Insufficient iodine status in pregnant women as a consequence of dietary changes. Food & Nutrition Research (2020) – Sýnir ófullnægjandi joðstöðu hjá barnshafandi konum á Íslandi og áréttar mikilvægi joðs á meðgöngu. 
3. StatPearls (NCBI Bookshelf). Jod-Basedow Syndrome (endurskoðað 2023) – Yfirlit um joð-vakna ofvirkni (iodine-induced hyperthyroidism) eftir inntöku/útsetningu fyrir joði (t.d. skuggaefni). 
🦋Skjaldkirtillinn okkar🦋