02/01/2026
Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!
Að baki er frábært ár á Fæðingarheimili Reykjavíkur og því einstaklega gaman að líta yfir farinn veg og taka saman árið í tölum um leið og við hugsum hlýlega til ykkar allra sem við höfum átt samleið með á liðnu ári ❤️
Árið 2025 fæddust 127 börn á Fæðingarheimili Reykjavíkur og tvö börn fæddust óvænt í heimahúsi - 63 stúlkur og 66 drengir. Þetta er metfjöldi fæðinga frá opnun - en í fyrra fæddust 83 börn og árið þar á undan 65 börn.
Meðgöngulengd var frá 37 vikum og 2 dögum og upp í 41 viku og 6 daga. Börnin voru að meðaltali 3768 grömm að þyngd, minnsta barnið var 2940g og það þyngsta 4703g.
⭐️ 40% voru að eignast sitt fyrsta barn
⭐️ 5% voru búsett utan höfuðborgarsvæðisins
⭐️ 18% kvenna voru af erlendum uppruna
⭐️ 12% voru að koma á Fæðingarheimili Reykjavíkur í annað sinn til að fæða barnið sitt
⭐️ 57% kvenna nýttu sér glaðloft til verkjastillingar
⭐️ 54% kvenna fæddu barnið sitt í baði
⭐️ 41% fæddu barn sitt á fjórum fótum eða hnjánum og var þetta algengasta fæðingarstellingin
⭐️ 68% voru með heila spöng eða fyrstu gráðu rifu
⭐️ 0% spangarskurður
Að auki hóf 71 kona fæðingu á Fæðingarheimili Reykjavíkur en var flutt á annan fæðingarstað áður en barnið fæddist (35%). Algengustu ástæðurnar voru ósk um deyfingu, langdregið fyrsta stig fæðingar eða grænt legvatn. Einnig voru 50 konur sem höfðu áætlað fæðingu á Fæðingarheimili Reykjavíkur á einhverjum tímapunkti en plön breyttust áður en fæðing hófst. Ástæður fyrir því voru mjög fjölbreyttar en má til dæmis nefna háþrýsting og barn í sitjandi stöðu.
Við óskum öllum þessum fjölskyldum innilega til hamingju um leið og við þökkum þeim - og ykkur öllum - fyrir samfylgdina á frábæru ári ❤️