17/02/2025
Þessi frétt frá Bretlandi sem birtist í lok janúar er ákaflega sláandi og þarf að vera öðrum samfélögum víti til varnaðar
Vaxandi truflanir eða seinkun á hreyfiþroska barna á borð við að eiga erfitt að ganga upp stiga, slakur bolstyrkur sem gerir barninu erfitt að sitja án stuðnings og ýmislegt þar fram eftir götunum virðast vera merki um neikvæðar afleiðingar mikilla samfélagslegra breytinga.
Mismunandi þættir eru taldir upp sem mögulegir orsakavaldar versnandi hreyfiþroska á borð við aukna skjánotkun, færri samverustundir foreldra og barna bæði vegna vaxandi framfærslukostnaðar og þ.a.l. þörf á lengri vinnudegi, vaxandi skjátíma foreldra og afleiðingar heimsfaraldurs Covid.
Rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl hreyfiþroska barna, námsárangurs og félagslegs þroska og því getur seinkaður hreyfiþroski barna haft veruleg áhrif á framtíð þeirra. Það er því til mikils að vinna fyrir foreldra og skólasamfélagið að beina sjónum sínum að örvun hreyfiþroska
Þrátt fyrir að leikskólakennarar séu miklir áhrifavaldar á hreyfiþroska barna og leikskólar almennt leggi mikið upp úr virkum leik og hreyfingu barna eru það samt foreldrar sem spila stærsta hlutverkið í þroska barna sinna og eru fyrirmyndir þeirra í leik og starfi.
Markviss örvun hreyfiþroska þarf ekki að vera flókin en hún krefst fyrst og fremst samverustunda foreldra með börnum sínum.
Hjá ungabörnum getur örvunin t.d. falist í að leika við barnið í magalegu, hvetja barnið til að teygja sig eftir dóti, skynörvun (nota t.d. hárbursta eða annað slíkt og strjúka yfir húðina), kitla osfrv. Sund er frábær hreyfing og samvera foreldra og barna á öllum aldri sem gefur nánd um leið og örvun.
Að ganga með barninu berfættu í grasi, sandi, vatni osfrv er góð þjálfun líkt og að ganga upp og niður brekkur, stiga og yfir hindranir
Göngur, fjallgöngur og almenn útivist er einnig nærandi, á sumrin D-vítamínbætandi og hafa rannsóknir sýnt að börn sem leika í náttúrulegu umhverfi frekar en manngerðu hafa sýnt fram á betra jafnvægi og samhæfingu og erum við á Íslandi því með einstakan náttúrulegan leikvöll til að aðstoða við hreyfiþroska barnanna okkar.
Ekki síst er mikilvægt að stjórnvöld fylgist vel með þessari þróun í gegnum rannsóknavinnu og sinni mikilvægu og markvissu forvarnarhlutverki með áberandi ráðgjöf og fræðslu til foreldra og starfsmanna leikskóla.
Fjórðungur barna sem hefja undirbúningsnám í grunnskóla á Bretlandseyjum er enn í bleyjum. Þá virðast mörg þeirra skorta styrk og hreyfigetu, sem kennarar rekja til mikillar skjánotkunar.