04/01/2025
Gleðilegt nýtt ár 2025 og velkomin hækkandi sól 🌞
Við í Sjúkraþjálfun Akureyrar höfum verið að undirbúa vorönnina og hér gefur að líta nýja stundartöflu sem tekur gildi nú í janúar.
Það er margt á döfinni hjá okkur:
Slitgigtarskólinn hennar Marijolijn hefst 9.janúar og byrjar á tveimur fræðslutímum og síðan tekur við þjálfun 2x í viku í 7 vikur. Þessir tímar eru á mánudögum og fimmtudögum kl. 12.00-13.00
Slitgigtarskóli framhald á miðvikudögum kl. 9.00-10.00 er fyrir þá sem tekið hafa slitgigtarskólann en vilja halda áfram og fá aðhald við æfingarnar.
Bakheilsa eru nýjir tímar hjá okkur sem Kristín Rós og Marijolijn sjá um á mánudögum og fimmtudögum kl. 9.00-10.00. Þær munu verða með fræðslu en aðallega eru þetta æfingatímar með áherslu á líkamsstöðu, bol, axlargrind og mjaðmir, bæði liðkun, stöðugleika og styrk.
Sérstakir tímar fyrir ME/CFS/Long Covid greinda eru líka nýjir tímar í stundartöflunni á þriðjudögum og föstudögum kl. 11.30-12.10. Í þeim tímum er verið á dýnu eða setið á stólum. Áhersla er lögð á að slaka á taugakerfinu, losa um spennu í bandvefskerfinu, örva sogæðakerfið og djúpa öndun.
Boltar og rúllur eru vinsælir tímar og eru nú tveir tímar í stundartöflunni á þriðjudögum og föstudögum kl. 10.15 - 11.15. Þar er verið að vinna með æfingar sem slaka á taugakerfinu og nudda/vinna með bandvefinn með rúllum, boltum og liðkandi æfingum á dýnu. Endað er á slökun og djúpöndun.
Jóga og öndun á miðvikudögum kl. 8.10 í umsjón Marijolijn eru nýjir tímar. Jóga er bæði liðkandi, styrkjandi og slakandi í senn og áhersla er á að opna fyrir og ná tökum á djúpri áhrifaríkri öndun. Góð byrjun á deginum.
Hreyfiflæði á miðvikudögum kl. 10.15-11.15 eru liðkandi og spennulosandi tímar þar sem fókus er á bandvefskerfið og rennsli/flæði í þessu mikilvæga kerfi. Endað er á dásamlegri slökun.
Hreyfiflæði + á mánudögum og miðvikudögum kl. 16.30-17.30 eru liðkandi tímar þar sem blandað er inní jafnvægis/stöðugleikaæfingum og styrktaræfingum.
Styrkur og jafnvægi og Styrkur og teygjur á mánudögum og fimmtudögum kl. 10.15-11.15 í umsjón Þóru Guðnýjar og Olgu eru mjúkir styrktartímar í bland við jafnvægis- og teygjuæfingar. Henta vel byrjendum jafnt sem aðeins lengra komnum því þjálfarar finna leiðir fyrir alla.
Endurhæfingarhópur á þriðjudögum kl. 9.00-10.00 fyrir 25-35 ára í umsjón Olgu er fyrir ungar konur sem fá í þessum tíma góðar leiðbeiningar og aðhald við þjálfun.
Konutímar 60+ eru fjölbreyttir tímar fyrir konur 60 ára og eldri í umsjón Þóru Guðnýjar á mánudögum og fimmtudögum kl. 13.30-14.30. Unnið er með færni í víðtækri merkingu, jafnvægi, styrk, liðleika og úthald og í bónus er um einstakan félagsskap að ræða.
Sundleikfimi í Glerársundlaug í umsjón Eydísar er á fimmtudögum kl. 13.30-14.10. Sá tími er á beiðnakerfinu eins og allir aðrir tímar á stofunni. Einnig býður Eydís upp á sundleikfimi í Glerársundlaug á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 14.30-15.20 sem hefst 7.janúar og endar 15.maí og er á annargjaldi. Val er um að vera 1x í viku eða 2x í viku.
Vefjagigtarfræðsla í umsjón Eydísar mun hefjast þriðjudaginn 11.febrúar - 1.apríl. Námskeiðið er þverfaglegt og fer fram á ZOOM á þriðjudögum kl. 19.30-21.30 í beinni útsendingu en í kjölfarið fylgir upptaka sem hægt er að horfa á eftirá og er opin í nokkrar vikur. Að námskeiðinu koma læknir, sjúkraþjálfarar, sálfræðingur og iðjuþjálfi. VIRK hefur keypt þetta námskeið fyrir sína skjólstæðinga en án aðkomu VIRK kostar námskeiðið 30.000 kr.
Ef þið hafið áhuga á einhverju af þessu úrvali úrræða endilega ræðið við ykkar einka sjúkraþjálfara til að fá ráðgjöf (ef þið eruð hjá einum) og/eða hafið samband við eydis@sjukak.is eða þann sjúkraþjálfara sem heldur utan um úrræðið/tímana.
Við hlökkum til að byrja önnina með ykkur.