Heilun hjálpar okkur að styrkja sambandið milli sálar og líkama og koma jafnvægi þar á milli. Hún vinnur bæði með verki og líkamlega kvilla sem og tilfinningar, eins og streitu, áföll, ótta, sorg, þunglyndi, kvíða, reiði o.s.frv., sem geta stundum hindrað okkur að takast á við ýmsar aðstæður í lífinu. Heilun getur hjálpað að skilja þessar aðstæður. Hún getur einnig styrkt ónæmiskerfið og hjálpað þannig líkamanum að takast á við hvers konar veikindi. Yfirleitt fylgir heilun djúp slökun, bæði andleg og líkamleg, sem er mjög nauðsynleg og notaleg öllum, stundum dettur heilunarþegin alveg út og sofnar og er það í lagi. Þá fær líkaminn færi á að vinna með heilunarorkuna. Fólk getur upplifað heilunina á mismunandi hátt og sumir finna jafnvel ekki fyrir neinu. Aðrir geta kannski fundið fyrir hita, kulda eða eins konar rafmagnstilfinningu, jafnvel séð liti eða myndir í huganum. Einstaka finna fyrir fleiri höndum en heilarans eða þá að hendur heilarans séu stærri eða minni en þeim finnst að þær eigi að vera (þá getur verið um aðstoð að ræða). Í einhverjum tilvikum geta ýmsar tilfinningar komið upp á yfirborðið og þá er mikilvægt að leyfa þeim að koma og fá útrás, því þetta er aðferð sem líkaminn og sálin nota til þess að hreinsa sig. Stundum getur verkur, sem verið er að vinna með, versnað í smá stund og þá ætti ekki að hætta fyrr en hann hverfur, því annars gæti hann mögulega orðið viðvarandi í einhvern tíma,það getur líka komið upp að heilunarþeginn grætur og það er bara góð losun. Það verður að leyfa líkamanum að klára úrvinnsluna, slaka á og streitast ekki á móti þó það geti verið óþægilegt í smá stund. Heilunartíminn er yfirleitt á bilinu 45-60 mínútur. Eftir að honum er lokið er mikilvægt að drekka nóg af vatni til að aðstoða líkamann við að skila út úrgangs- og eiturefnum sem heilunin hjálpar þiggjandanum að losa sig við.