02/09/2025
Þetta er mín lífssýn og vel framsett hjá kæru Jónínu Viska og gleði🥰✨️💖✨️
SÓL SÓLARINNAR
Margir upplifa það sem við köllum Guð, uppsprettu ljóssins, skaparann, almættið, alheimsorkuna, sem Sól Sólarinnar. Sjáum við þetta þannig, þá merkir það í okkar huga að við erum öll, sem sálir, sprottin af þessari Sól Sólarinnar.
Þegar við skoðum sálarkjarnann okkar með innri augum, þá er hann í laginu eins og sól. Lifandi sól. Sérhver sál er sem lítil sól, afsprengi hinnar miklu Sólar. Þegar sálir verða til, er það líkt og þær fæðist út úr þessum ljósgjafa. Það kvikna sólir út úr stóru sólinni.
Þannig erum við öll uppruninn frá þessari uppsprettu ljóssins sem sumir kalla Guð. Aðrir kalla hana kærleiksuppsprettuna, alheimsorkuna, ljósið eða hvaða nafni sem við viljum nefna það.
Allar manneskjur, óháð trú eða trúleysi, eru sprottnar af þessari sömu sól, þessari uppsprettu. Við erum öll jafnt tengd Guði og ljósi lífsins. Það eitt að vera hér, sem sál í líkama, gerir okkur að hluta af heildinni. Við erum öll úr ljósi. Við erum þetta ljós. Annars værum við einfaldlega ekki til sem sálir, og þar af leiðandi ekki heldur sem sálir í líkama.
Þó að sálirnar hafi margvíslegan uppruna frá ólíkum plánetum eða víddum, eru þær allar jafnar að eðli og verðleikum. Verkefni sem við tökum að okkur sem sálir þegar við komum til jarðar eru ólík og þau fylgja okkur á milli lífa.
Við höfum oft reynt að uppfylla þessi verkefni í gegnum lífin, í samstarfi við sálnahópinn okkar bæði í líkama og utan hans. Innra með okkur býr ætíð sú djúpa þrá að uppfylla og fylgja þeirri leið sem sálin valdi í upphafi.
Þó að við séum hér í líkama, þá er aðeins hluti sálarinnar virkur innan líkamans. Það er vegna þess að hann getur aðeins borið lítið brot af sálarkjarnanum. Við sinnum þannig einnig ýmsum verkefnum fyrir utan hinn efnislega heim, bæði á daginn og um nætur.
Hver hefur ekki upplifað það að „dotta“ eitt augnablik og koma svo hlæjandi til baka inn í dagvitundina? Það eru mörg svona augnablik sem við ferðumst út fyrir líkama og dveljum með vitundina í öðrum víddum.
Í orkunni ferðumst við oft yfir í andlega heiminn til þess að læra hluti sem við höfum ekki tök á að læra í þeim efnisheimi sem við hrærumst í dags daglega. Þannig setjumst við oft á skólabekk á nóttunni hjá andlegu meisturum og ljósverum sem hafa tekið það verkefni að sér að kenna okkur ýmis fræði á nóttunni.
Þetta gerist líka í dagvitundinni, þegar við erum að sinna einhverju sem krefst ekki fullrar athygli. Það getur t.d. gerst þegar við erum að keyra bíl. Það er eins og við höfum verið á sjálfsstýringu og munum ekkert hvernig við komumst á áfangastað. Þetta er mögulegt vegna þess að það er send inn önnur sál til þess að sjá um aksturinn á meðan við erum að sinna öðru.
Við erum stöðugt að vinna að mörgum verkefnum samtímis. Ekki aðeins meðvitað heldur líka á öðrum sviðum veruleikans. Þetta á ekki bara við um andlega meðvitað fólk. Allar sálir lifa og starfa í mörgum lögum tilverunnar í einu, bæði í efnisheimi og andlegum heimi.
Við undirbúum líka endurfundi við aðrar sálir sem ætla að vera okkur samferða á lífsleiðinni, löngu áður en við hittum þær í efnislíkama. Við erum farin að sjá þær birtast af og til í orkunni og draumum. Það er hinn eiginlegi undirbúningur að hittingi í efnislegu formi. Þó er það þannig að við skiljum ekki alltaf strax hvað við erum að upplifa og af hverju.
Þegar dauðinn nálgast, hefst undirbúningur heimkomunnar löngu áður en líkaminn kveður. Í samstarfi við leiðbeinendur okkar og hjálpendur veljum við nýtt húsnæði og ákveðum þau verkefni sem við ætlum að taka að okkur á næsta stigi tilverunnar.
Það er alltaf eitthvað sem undirbýr okkur mjúklega þegar ættingjar og vinir eru að fara í gegnum þá umbreytingu að fara yfir í andlega heiminn. Orkan eða undirvitundin veit alltaf hvað er í vændum, jafnvel þó að umskiptin fari fram að því er virðist mjög snögglega.