03/10/2022
Miðaldra?
Þegar fólk kemst á ákveðinn aldur breytist oft forgangsröðin og mynstrið. Um miðjan aldur eru börnin ykkar orðin sjálfstæðari (ef þið eigið börn), jafnvel flutt að heiman og “gamla” settið situr oftar eitt heima og hefur meiri tíma fyrir sig sjálf. Á sama lífsskeiði eru oft aðrar breytingar, þið eruð kannski komin á þann stað í starfi sem þið viljið vera á og mesta fjárhags baslið vonandi að klárast.
Þetta ætti að vera algjör óskatími fyrir pör og framundan rómantískar stundir og fullorðins ferðalög, tími til að sinna spennandi áhugamálum og eiga djúpar samræður við maka og vini.
En svo er ekki alltaf… Breytingar fara misjafnlega í fólk og þetta er oft tími sem veldur streitu og óvissu í parsambandinu. Einnig spilar heilsa og hormónabreytingar sitt hlutverk á þessu tímabili. Kannski er erfitt að sjá hvað þið eigið sameiginlegt þegar barnauppeldi og heimilisbras er ekki lengur inn í myndinni? Mögulega er langt síðan áhugamálunum var sinnt?
Þetta þýðir þó ekki að sambandið sé komið á endastöð, kannski þarf bara að forgangsraða upp á nýtt, takast á við áskoranir saman, finna sameiginleg áhugamál eða sætta sig við að stærstu áhugamálin eru bara alls ekki sameiginleg (sem er allt í lagi).
Ef þið finnið ekki rétta taktinn fljótt þá getur verið frábær hugmynd að kíkja í nokkra tíma hjá góðum pararáðgjafa sem getur gefið góða leiðsögn í gegnum þetta tímabil, rifja upp og skoða styrkleika sambandsins og fara sterkari saman inn í framtíðina.