17/11/2022
Í dag er alþjóðlegur dagur fyrirbura.
Brjóstagjöf með fyrirbura lítur oft allt öðruvísi út en við höfðum ímyndað okkur fyrirfram. Fyrstu daga og vikur, jafnvel mánuði eftir því hversu snemma barn fæðist, snýst brjóstagjöfin um að pumpa og safna mjólk. Pumpan verður besti vinur þinn en líka sú græja sem þú hatar mest. Hún hjálpar þér að mjólka þig svo hægt sé að gefa barninu mjólkina með sondu, slöngu sem liggur ofan í maga en þú ert líka rosalega bundin við pumpuna, þarft að mjólka þig mjög reglulega og það getur verið erfitt að sinna slíku á sama tíma og þú ert ekki með barnið þitt hjá þér og sérð það bara hluta dags. Það eru aðrar manneskjur sem þú þarft að treysta fyrir barninu þínu og þær eru oft aðilarnir sem gefa svo barninu að borða. Og það getur tekið á.
Fyrst um sinn hafa fyrirburar oft ekki getu til að anda, sjúga og kyngja á sama tíma. En það kemur. Fyrst um sinn er það að hafa barnið í fangi, í kengúrumeðferð það sem skiptir máli. Smám saman geta börnin farið að prófa, byrja oft bara á því að sleikja geirvörtuna áður en þau hafa síðan getu til að sjúga og kyngja án þess að það trufli öndun. Algengt er líka að fyrirburar séu bæði á brjósti og á pela þegar sondunni er sleppt. Þetta er mikil vinna fyrir bæði barn og foreldra en við heyrum líka oft hversu mikils virði hver gjöf er. Það að sjá barnið ná færni, taka smám saman meira og meira af brjósti er dýrmætt. Sum ná að færa sig alveg yfir á brjóst en önnur halda áfram í blandaðri gjöf eða færast alveg yfir á pela. Þetta hefur allt virði.
Þegar heim kemur tekur við vinnan við að venjast nýrri rútínu, jafnvel átta sig á að þið getið smám saman sleppt takinu á stífri rútinu og farið að lesa barnið, hvað það vill og hvenær.
Ég dáist að foreldrum fyrirbura og duglegu börnunum þeirra. Þau hafa oft farið aðeins meiri krókaleiðir á sinni ferð. Brjóstagjöf er alltaf vinna, en í þessum tilfellum hefur vinnan verið ansi mikil.
Mynd eftir Alexander Grey