06/06/2025
Jakobína Valdís Jakobsdóttir, 92 ára, hefur tvisvar dvalið á Sóltúni Heilsusetri💛
Hún er fædd og uppalin á Ísafirði þar sem skíði áttu hug hennar allan. Hún varð Íslandsmeistari í skíðaíþróttum 19 sinnum, þrátt fyrir að hafa fengið kíghósta sem barn og lamast við það á öðrum fæti í heilt ár.
Jakobína var fyrsta íslenska konan til að keppa á Heimsmeistaramóti á skíðum, í Svíþjóð árið 1954, og síðar á Ólympíuleikunum í Cortina á Ítalíu árið 1956. Í þá daga voru engir styrkir í boði fyrir afreksfólk í íþróttum og þurfti Jakobína að vinna á hóteli samhliða því að keppa á leikunum til að greiða fyrir ferðina💪
Vetrarólympíuleikarnir verða einmitt haldnir aftur í Cortina á næsta ári, árið 2026 – 70 árum eftir þátttöku Jakobínu. Hún segir að hún fari kannski með barnabörnunum á leikana á næsta ári og við vonum að sleppi hún við hótelvinnuna í þetta skiptið😊
Jakobína hefur alla tíð verið dugleg að hreyfa sig og hefur stundað sund og göngur auk skíðaiðkunarinnar. En fyrir 30 árum lenti hún í bílslysi og hefur eftir það verið með lélega öxl þar sem hún getur ekki lyft handleggnum almennilega.
Einnig lenti hún í veikindum sem leiddu til þess að hún datt heima hjá sér og varð það til þess að hún fór að leita leiða til að styrkja sig. Var það þá sem frænka hennar kynnti hana fyrir Heilsusetrinu og hún sótti um dvöl hér💛
„Upplifunin hefur verið alveg frábær og ég segi öllum frá henni,“ segir Jakobína. „Það besta eru æfingarnar og tækjasalurinn. Ég finn að kannski þarf ég mikla hreyfingu og ég finn mikinn mun á mér. Ezster (sjúkraþjálfari) hefur verið dugleg að pína mig – og ég meina það á jákvæðan hátt. Nú get ég lyft handleggnum hærra en áður.“
„Ég saknaði þess til dæmis að geta gengið upp stiga, en nú get ég það án þess að halda mér í. Það g*t ég ekki fyrir fyrstu dvölina mína hérna, en í dag get ég það. Ég mæli sérstaklega með Heilsusetrinu og mér hugnast vel að koma aftur hingað því öxlin má ekki stirðna aftur.“
Við hlökkum líka til að fá þessa kjarnakonu og frumkvöðul íslenskra kvennaíþrótta aftur til okkar!💛💪⛷️
(Myndin hér að neðan var tekin þegar Jakobína keypti sér nýja skíðaskó þá 87 ára gömul, geri aðrir betur! Mynd: Guðmundur Gunnlaugsson)
Sóltún Heilsusetur býður eldra fólki upp á metnaðarfulla endurhæfingu í 4-6 vikna dvöl, með það að markmiði að bæta verulega lífsgæði eftir að heim er komið.