03/03/2022
Frábært framtak hjá Kveik að taka til umfjöllunar öll skaðlegu plastefnin og önnur eiturefni sem eru í umhverfi okkar og hreinlega að drekkja okkur sem og ófæddu börnunum okkar.
Langar að benda á nýju bókina sem vinkona mín hún Jóhanna Vilhjálmsdóttir gaf út fyrir ca ári síðan en hún inniheldur allar þær upplýsingar sem við þurfum á að halda í dag til að vernda heilsu okkar -og barnanna okkar ❤
Jóhanna segir:
Eitt stóra málið er þegar kemur að eiturefnunum er hvernig við verndum okkur og börnin okkar fyrir þeim almennt og einnig inn á heimilinu. Og ekki bara það – heldur hvernig við getum þá í leiðinni gert jörðinni okkar og umhverfinu gagn.
Það ætti kannski að koma fæstum á óvart að gerviefnin sem maðurinn hefur búið til og sett út í umhverfið geti haft áhrif á heilsuna. En flest okkar förum við í gegnum daginn án þess að leiða hugann að þessum efnum; við snertum alls konar hluti, borðum, drekkum og öndum að okkur loftinu úti og heima hjá okkur án þess að hugsa um þau efni sem við komumst í snertingu við.
Hlutfallslega mest af eiturefnum í fóstrum og ungabörnum
Nú er svo komið að í hverjum einasta manni í hinum þróaða heimi finnast að lágmarki nokkrir tugir eiturefna, í blóði okkar og fituvef, allt upp í um þrjú hundruð. Alvarlegast er þegar kemur að heilbrigði okkar að börn eru útsettari fyrir þessum efnum en fullorðnir og hlutfallslega meira af þeim finnst í fóstrum og ungbörnum en foreldrum þeirra, ömmum og öfum – á gríðarlega viðkvæmum tíma í vexti og þroska allra líffærakerfa þegar efnin geta gert sem mestan skaða. Börnum stafar ógn af þeim strax í móðurkviði þar sem efnin fara frá móður til barns en efnin finnast í naflastrengsblóði og móðurmjólkinni. Í naflastrengjum nýfæddra barna mælist fjöldi eiturefna eins og flúorefni sem eru í Teflon pottum og pönnum og útivistarfatnaði, þungmálmar, skordýraeitur, PCB (fjölklóruð bífenýlefni) og fleiri eiturefni.
Hér er hægt að kaupa þessa "alfræði"bók Jóhönnu um eiturefnin og ég mæli með henni fyrir alla sem uppflettirit en þarna eru ekki upplýsingar sem úreldast ❤ :
https://www.forlagid.is/vara/heilsbok-johoennu-ii/
Jóhanna setur fróðleik inn hér: https://johannavilhjalms.com/
Hér finnur þú fróðleik um áhrif lífsstíls á heilbrigði okkar og jarðarinnar og greinar og fréttir hvernig við getum haft jákvæð áhrif á okkur og umhverfið.