18/08/2025
Afmælishátíð Heilsustofnunar NLFÍ
Það var margt um manninn, laugardaginn 16. ágúst, en 70 ár eru liðin frá því að Jónas Kristjánsson læknir opnaði Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hinn eiginlegi afmælisdagur er 24.júlí en það átti vel við að halda daginn hátíðlegan á Blómstrandi dögum sem má segja að sé þjóðhátíð Hvergerðinga. Blómleg dagskrá bæjarins stóð svo sannarlega fyrir sínu og margir lögðu leið sína til Hveragerðis.
Afmælisdagskrá Heilsustofnunar var frá 13-17 og kom fjöldi manns til fagnaðarins þar sem boðið var upp á girnilega tómatsúpu og meðlæti fyrir gesti og gangandi. Formleg dagskrá var frá kl. 14-14:30 í garðinum hjá Heilsustofnun og fengum við góðar kveðjur og gjafir frá Hveragerðisbæ, Grundarheimilum, Reykjalundi, Hollvinum Heilsustofnunar og fleiri góðum gestum.
Regína Birkis, barnabarn Jónasar Kristjánssonar læknis tók á móti gestum í minningarherbergi Jónasar og margir litu við í leirböðunum sem hafa fylgt starfseminni alveg frá upphafi.
Útileikir voru á túninu í boði Iceland Activities en einnig grænmetismarkaður sem var mjög vinsæll og fólk fékk smakk af nýbökuðu brauði, tómötum og agúrkum.
Systur, Sigga og Elín mættu á sviðið í garðinum, sungu afmælissönginn og tóku nokkur lög fyrir gesti.
Lokahnykkurinn var í smekkfullri Kapellu þar sem var haldin „kvöldvaka“ í anda Heilsustofnunar. Sigurður Skúlason flutti frábært erindi um Heilsustofnun og Jónas Kristjánsson lækni, las upp úr ævisögu Jónasar og einnig úr bókinni Vertu úlfur eftir Héðinn Unnsteinsson. Auk þess flutti hann vísur og kvæði, sögur og gamanmál og fór á kostum. Hjónin Arna Dal og Jón Arngríms léku fyrir gesti, ýmist á íslensku eða færeysku og stýrðu samsöng með gestum í Kapellunni með miklum myndarbrag.
Þakkir til allra sem komu og sérstakar þakkir til dvalargesta sem tóku þátt í deginum með okkur