28/11/2024
Hvernig er mögulegt að vera á móti slíkum forvörnum?
Við fengum ráðleggingar fagfólks í almannatengslum í fyrsta sinn sem ráðist var gegn orðspori Greenfit, sem hafði það að yfirlýstu markmiði að efla heilsu fólks með forvörnum og fjölga heilbrigðum æviárum.
Blaðamenn birtu fréttir af því að nafn látins læknis frá Palestínu hefði verið notað við blóðrannsóknir á okkar vegum en hið sanna í málinu var að tæknivilla í samskiptum tölvukerfa Landspítalans og Sameindar blóðrannsóknarstofu varð til þess að nafn þessa læknis blandaðist í umræðuna. Það hafði ekkert með Greenfit að gera. Forsvarsmenn bæði Landspítalans og Sameindar vita sannleikann og það veit embætti landlæknis líka (sbr. bréf sent frá forstjóra Sameindar til embættis landlæknis í mars 2023). Blaðamennirnir vissu það einnig áður en þau birtu fréttina. En þau kusu að henda litla fyrirtækinu fyrir lestina. Það var betra fyrir orðspor spítalans. Það var líka frétt sem var líkleg til að fá marga smelli.
Okkur var ráðlagt að þegja. Ekki segja sannleikann því það myndi vekja meiri athygli á málinu og ekkert víst að fólk trúi sannleikanum hvort sem er. Leyfa þessu bara að líða hjá.
Í síðustu viku var aftur ráðist að orðspori Greenfit að ósekju. Grein birtist í fjölmiðlum þar sem sjúkrahúslæknir segir okkur skapa vandamál í heilbrigðiskerfinu.
Það er gott að opna sig þegar sannleikurinn er með manni í liði.
Við erum gríðarlega stolt af árangri Greenfit og viðskiptavina okkar. Þau hafa sýnt okkur að með upplýsingum um eigin heilsu getur fólk stórkostlega bætt heilsu sína með eigin aðgerðum í lífsstílsvenjum.
Við erum stolt af viðskiptavinum okkar sem hafa lækkað blóðsykur, bætt blóðfitur, aukið vöðvamassa, lækkað fituhlutfall, náð að búa til börn þrátt fyrir greiningar um PCOS og fleiri vandræði, bætt súrefnisupptöku, aukið þrek og þol, bætt svefn og lífsgæði og umfram allt fjölgað heilbrigðum æviárum ...allt með því að breyta eigin ákvörðunum um daglegar venjur með hvata í því að fylgjast með mælingum.
Árangur viðskiptavina okkar og gögn sem staðfesta hann tala sínu eigin máli en er ekki byggður á tilfinningum og hræðsluáróðri.
Það vilja örugglega ekki allir slíkar upplýsingar um eigin heilsu líkt og sumir vilja ekkert endilega skoða stöðuna á lánunum sínum eða fara til tannlæknis þegar enginn tannpína er komin.
En þeir sem vilja ættu að hafa frelsi til að velja það aðgengi sjálfir. Enda byggir heilsulæsi meðal annars á því að hafa aðgengi að og getu til að skilja og hagnýta upplýsingar sem stuðla að góðri heilsu.
Hér eru örfá dæmi um árangur viðskiptavina Greenfit.
Hvernig er mögulegt að vera á móti slíkum forvörnum?