01/01/2025
Árið 2025🤍
Ljós og myrkur.
Það sem hefur verið mér hugleikið síðustu misseri er ljós og myrkur sem við sjáum um allan heim og líka innra með okkur sjálfum. Hérna á litla Íslandi hefur myrkrið líka verið áberandi og árið 2024 hefur sannarlega verið mörgum virkilega erfitt og óskiljanlegt hvernig þessir slæmu hlutir geta átt sér stað í okkar litla samfélagi. Það er alltaf þessi barátta, við þurfum að velja alla daga hvernig við bregðumst við því sem við mætum í lífinu sanngjarnt eða ekki.
Myrkur vex oft útfrá sársauka, óréttlæti, vonbrigðum og áföllum. Alveg eins og ljósið dafnar í kærleika, frið, þakklæti, bænum, hugleiðslu, þegar allt gengur vel og okkur líður vel, þá er líka svo auðvelt að vera góð/ur við aðra.
Ég ætla að fara inn í árið 2025 með ljósið að leiðarljósi og ég nota bænina til að fylla mig af ljósi og til að senda öðrum ljós sem eiga erfitt og Guð leggur á hjarta mitt.
Ég held að við þurfum að tala meira saman, bera miklu meiri virðingu fyrir öllu fólki. Vöndum okkur meira og veljum að vera ljós í orðum og gjörðum. Lífið er dýrmætt og við erum það öll líka, allir hafa sína sögu, uppeldi, menningu og samfélag sem mótar okkur en við getum öll valið að vera meira ljôs fyrir okkur sjálf, fjölskylduna okkar, vini og þá sem við þekkjum ekki. Þetta er alltaf val og það er erfiðast þegar okkur líður ekki vel að velja ljós og kærleika.
Ég bið þess og vona að árið 2025 verði þér/ykkur gæfuríkt og ég ætla að setja hér setningu sem mér finnst eiga við í því ástandi sem heimurinn er í núna:
“Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu. Róm 12:21🤍🙏