29/09/2022
Á hverju hausti hugsa ég um það hversu galið það í raun og veru er, að ætla að leggja grunninn að góðu taumsambandi í frumtamningunni á sama tíma og tryppin eru að ganga í gegnum tannskipti. Og þar að auki, mörg hver með úlftennur líka.
Á fyrri myndinni má sjá hvernig gröfturinn lekur undan mjólkurtönninni sem er númer tvö í röðinni. Á fremsta jaxlinum má sjá hvernig varanlegi jaxlinn er farinn að gægjast og mjólkurtönnin þarf að fara að hypja sig svo hún hafi ekki varanleg áhrif á legu nýju tannarinnar. Þar fyrir framan er svo lítil úlftönn. Þessi sýn er algeng. Þetta er ekki einhver sjaldséður hvítur hrafn, eins og sumt sem ég sýni hér á síðunni. Eftir að hafa farið í gegnum þrjú tryppi og tekið það sem er að valda óþægindum akkurat í augnablikinu varð til þessi fína hrúga sem sjá má á mynd númer tvö.