05/01/2026
Nýárskveðja
Ég óska starfsfólki, sjúklingum, hollvinum Reykjalundar og landsmönnum öllum gleðilegs og heillaríks nýs árs!
Nú, þegar sól er tekin að hækka á lofti á nýjan leik, horfi ég björtum augum til þeirra verkefna sem bíða okkar á Reykjalundir á árinu 2026. Þau eru af ýmsu tagi.
Reykjalundur fagnaði á síðasta ári 80 ára afmæli með útgáfu bókar um merkilega sögu endurhæfingar og heilbrigðisþjónustu á Reykjalundi. Þar kemur m.a. fram að húsakostur og starfsemi hefur frá upphafi byggst á happdrætti SÍBS. Nú er svo komið að verulegar lagfæringar þarf að gera á húsnæði og áframhaldandi uppbygging er nauðsynleg til að mæta þörfum nú og til framtíðar litið. Fjárhagslegur stuðningur í gegnum happdrætti SÍBS nægir ekki til að fjármagna þau verkefni sem nauðsynlega þarf að vinna.
Nú í janúar er brýnt að endurnýja þjónustusamning Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands. Nánast allar tekjur Reykjalundar koma í gegnum þennan samning við Sjúkratryggingar. Sá samningur rann út á síðasta ári en var framlengdur til janúarloka 2026. Sá samningur gerir aðeins ráð fyrir að greitt sé fyrir heilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu, en gerir ekki ráð fyrir húsaleigu eða afnotum af húsnæði Reykjalundar. Þessu verður að breyta og meðal markmiða í fyrirliggjandi samningaviðræðum okkar við Sjúkratryggingar er að fá samþykktar húsnæðisgreiðslur til að við getum endurnýjað húsnæði og byggt nýtt sem uppfyllir kröfur samtímans.
Fjárhagslegur rekstur Reykjalundar hefur ekki gengið nægilega vel á síðustu árum og það er mikil áskorun fyrir okkur öll að rétta reksturinn við og ná að gera hann sjálfbæran. Skiptir þar miklu að við skipuleggjum starfsemina í samræmi við kröfur sem gerðar eru til starfsemi Reykjalundar í samningi við Sjúkratryggingar. Eftir mikla greiningarvinnu sem fram fór í lok árs 2025 er komið í ljós að það er gerlegt með endurskipulagningu á nær allri þjónustu og teymisvinnu. Við munum á árinu 2026 einbeita okkur að því að vinna skv. samningskröfum SÍ en í komandi samningsviðræðum erum við einnig með hugmyndir um breytingar á tilhögun og uppbyggingu sem mun efla Reykjalund á margvíslegan hátt.
Loks má nefna að Hollvinasamtök Reykjalundar eru mikilvægur bakhjarl starfseminnar, bæði í fjárhagslegu tilliti og til að varðveita sögu og góða ímynd starfseminnar. Við viljum að sem flestir, ekki aðeins útskrifaðir sjúklingar, viti um tilvist Hollvinasamtakanna. Við viljum að öll íslenska þjóðin sjái hag sinn í því að leggja Reykjalundi lið, bæði með stuðningi við Hollvinasamtökin og happdrætti SÍBS. Þessir aðilar munu á árinu 2026 sameina krafta sína í undirbúningi landssöfnunar fyrir Reykjalund, sem fara mun fram á vegum RÚV næsta haust.
Verkefnalistinn er langur, en við höfum orðið sammála um að setja endurnýjun sjúkraþjálfunargangsins í forgang. Við munum á þessu ári fara í gagngerar endurbætur á húsnæði, aðstöðu og búnaði sjúkraþjálfunar á Reykjalundi. Við stefnum einnig að því að endurnýja og endurbyggja sólskálabyggingu á þremur hæðum þar sem tréverk í gluggum er orðið fúið og gluggar ónýtir. Þá þarfnast sundlaugin kostnaðarsamrar viðgerðar.
Ég vona innilega að við verðum samstíga í störfum okkar fyrir Reykjalund á komandi ári. Það er mikilvægt að við róum öll í sömu átt og kappkostum öll að gera eins vel og við getum til heilla Reykjalundi og þeim sjúklingum sem okkur er falið að sinna.
Með einlægri ósk um að árið 2026 verði okkur öllum gott og farsælt,
Svana Helen Björnsdóttir,
starfandi forstjóri Reykjalundar