
11/09/2025
Hvernig líður þér?
Í september snýst allt um gula litinn, lit vonar og samstöðu í kringum forvarnir gegn sjálfsvígum og mikilvægi þess að við tölum opinskátt um geðheilsu.
Gulur september minnir okkur á að spyrja: „Hvernig líður þér?“ og þora að stíga inn í samtölin sem skipta máli.
Á vinnustöðum er þetta sérstaklega mikilvægt. Þar eyðum við stórum hluta lífsins, með samstarfsfólki sem við sjáum oft meira af en vinum og fjölskyldu. Ef vanlíðan fer framhjá okkur eða við þorum ekki að vekja máls á vanlíðan getur hún vaxið og orðið að dýpri vanda. En ef við grípum snemma inn, með hlýju og athygli, getum við skipt sköpum.
Geðheilsa á vinnustöðum. Sameiginleg ábyrgð okkar allra
Andleg vanlíðan er algeng: streita, kvíði, kulnun og svefnvandi eru allt hluti af daglegum veruleika margra. Flest okkar munu á einhverjum tímapunkti glíma við tímabil þar sem orkan dvínar, hegðun breytist eða samskipti verða erfiðari.
Á vinnustöðum birtist þetta í skertri einbeitingu, aukinni fjarveru, samskiptaörðugleikum eða einfaldlega í því að manneskja sem áður var lífleg dregur sig til baka.
Við þurfum ekki að vera sérfræðingar til að bregðast við. Það sem skiptir máli er að við séum til staðar, sem manneskjur, samstarfsfélagar og stjórnendur.
Sálræn fyrsta hjálp er einföld en áhrifarík færni
Þegar við tölum um fyrstu hjálp hugsum við oft um hjartahnoð eða að setja plástur á sár. En það er líka til fyrsta hjálp fyrir andlega heilsu. Hún kallast sálræn fyrsta hjálp.
Sálræn fyrsta hjálp byggir á þremur einföldum meginreglum:
KANNA: taka eftir breytingum í hegðun, orku eða samskiptum.
HLUSTA: vera til staðar, án þess að dæma eða hoppa beint í lausnir.
TENGJA: styðja við næstu skref, hvort sem það er að ræða úrræði innan vinnustaðarins eða benda á aðstoð utan hans.
Þetta eru ekki flókin atriði, en þau krefjast hugrekkis. Hugrekkis til að stíga fram, spyrja og sýna að okkur sé ekki sama.
Af hverju skiptir máli að þora?
Í starfi okkar hjá Mental ráðgjöf sjáum við aftur og aftur að erfiðustu starfsmannamál á vinnustöðum eiga oftar en ekki rætur að rekja til einhvers sem byrjaði smátt. Smá vanlíðan sem enginn nefndi, pirringur sem safnaðist upp, þreyta sem enginn spurði um.
Ef einhver hefði staldrað við og sagt: „Ég sé að þú ert ekki alveg eins og þú átt að þér að vera, viltu tala um það?“ hefði í mörgum tilfellum verið hægt að koma í veg fyrir að vandinn þróaðist í krísu.
Þögnin er hættulegri en samtalið.
Gulur september er kjörið tækifæri til að opna umræðuna
Gulur september er ekki bara mánuður til að huga að eigin geðheilsu, hann er líka tækifæri til að byggja menningu á vinnustöðum þar sem það er í lagi að tala um líðan. Þar sem við könnum, hlustum og tengjum.
Þetta snýst ekki um að leysa vanda og við þurfum síður en svo að vera sálfræðingar. Þetta snýst um að opna fyrir samtöl, nærandi samveru og stuðning.