
31/01/2025
Knattspyrnufélag Reykjavíkur og Sjúkraþjálfun Reykjavíkur hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að iðkendur í yngri flokkum félagsins fái forgang í sjúkraþjálfun hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur.
Markmið samstarfsins er að auka aðgengi iðkenda að sjúkraþjálfun því það hefur sýnt sig að ef gripið er fljótt inn í þegar meiðsli hafa orðið er hægt að lágmarka tímann sem iðkendur eru frá íþróttinni sinni og koma í veg fyrir brottfall iðkenda vegna meiðsla. Sjúkraþjálfarar munu veita þjálfurum félagsins ráðleggingar þegar kemur að meiðslaforvörnum og viðbrögðum við meiðslum.
Hvernig á að panta tíma?
Tímabókanir fara fram á ithrottir@srg.is
Taka þarf fram kennitölu iðkanda og kennitölu og símanúmer forráðamanns.
Hvað kostar tíminn fyrir 18 ára og yngri?
Með beiðni frá lækni er ekkert gjald tekið
Án beiðni er greitt 30% af heildarverði tímans
Við vonum að iðkendur KR nýti sér þetta samstarf og leiti til sjúkraþjálfara ef á þarf að halda.