25/03/2025
Nálastungur styðja við heilbrigði kvenna sem eru að fara í gegnum þetta ferli.
Í Bandaríkjunum eru 55 miljarðar til ráðstöfunar í rannsóknastarf.
15 miljarðar fara í rannsóknir á kvenheilsu sem beinist aðallega að frjósemisrannsóknum og meðgöngu.
0.3% af öllum monníngunum fara í að rannsaka breytingaskeiðið.
Sem sendir skilaboð um að þessar gömlu kjellingar eru bara afgangsstærð sem enginn hefur áhuga að skoða betur.
Af þessu leiðir fáfræði og þekkingarleysi á þeim fjölmörgu einkennum sem konur upplifa á þessu skeiði.
Því estrógen kemur við sögu í öllum kerfum líkamans.
Estrógen stuðlar að meiri samdrætti vöðva.
Spilar rullu í að lækka bólgur í líkamanum.
Stuðlar að heilbrigðri þarmaflóru í gegnum estrabolome.
Hefur stjórn á serótónín og melatónín sem stuðlar að betri svefni.
Smurning á liðum.
Stýrir hitastigi í skrokknum.
Styrkir beinin.
Þegar estrógen lækkar í skrokknum hefur það áhrif á fítonskraftinn í járnrífingum, beinþynningu, meiri bólgumyndun, þarmaflóran fer í fýlu, svefninn út á tún með rollunum, liðverkir aukast, hitakóf eins og að sippa í sánu.
Allt í einu er mallakútur mjúkur, baugar eins og á Derrick og einhverjar örfáar lýjur eftir af hári.
Bætum við blóðsykursrugli, svima, eyrnasuð, heilaþoku, kvíða, depurð, og þegar testósterónið hypjar sig líka verður bara ekki eins gaman í lífinu og áður og hvötin er í niðurfallinu í sturtunni .... með öllu hárinu úr hárlosinu.
Einkenni breytingaskeiðs eru sjötíu talsins.
Og þau geta gert vart við sig uppúr 35 ára og varað alveg til rúmlega fimmtugs.
En margar konur upplifa gaslýsingu þegar þær tala um einkenni sín við lækninn sinn.
Sérstaklega ef þær eru ungar, ennþá á blæðingum og ekki að kafna úr hita á nóttunni.
Tölur sýna að 85% kvenna koma inn til læknis vegna einkenna breytingaskeiðs en 10.5% fái viðeigandi meðferð.
Grenjandi kelling. Ímyndunarveik. Vesenispési.
Hysterísk.... sem er dregið af gríska orðinu 'Hyster' sem þýðir leg og var þýtt á okkar ylhýra sem móðursýki.
Ódýr og snögg afgreiðsla.
"Veistu hvað kostar að gera blóðprufur?"
"Þú ert enn svo ung."
"Ertu ekki bara undir rosa miklu álagi? "
"Hér eru þunglyndislyf og kvíðalyf..... vessgú....."
"Og vertu svo duglegri að stunda húllumhæ með makanum."
Og þær labba út með ranghugmynd um að þær séu að tapa glórunni.
Því þær þekkja ekki líkamann sinn lengur.
Áður hvísluðu konur sín á milli um breytingaskeiðið, því það fylgdi skömm að vera allt í einu ekki fýsilegur kostur til barneigna.
Meiri umræða er að brjóta tabúið sem hefur fylgt breytó.
Konur eru að tala upphátt í saumaklúbbum, á samfélagsmiðlum, á vefmiðlum og í hlaðvörpu.
Höldum áfram að garga á torgum því hver og ein kona á sína einstöku sögu og einkenni.
Konur þurfa að vera með hökuna upp og kassann fram grjótharðar að fá tilvísun á kvennsa.
Vera kýrskýrar með sín einkenni og biðja um blóðprufur.
Taka ekki annað í mál en að labba út með viðeigandi meðferðarform: hormónauppbót, hugræna atferlismeðferð eða annarskonar meðferð.
Og fá ráðleggingar um lífsstílsbreytingar sem eiga við í þessum nýja kafla lífsins.
Læknar þurfa að fræða sig um breytingaskeiðið og öll einkennin.
Vera opnir fyrir að um sé að ræða lækkandi hormón sem skýri vanda kvenna 30-50 ára sem leita til þeirra.
Hvaða frasa hefur þú fengið að heyra sem kona á breytingaskeiði? 👇👇