
20/09/2025
Um síðustu helgi fóru nokkrir Kjalarfélagar í æfingaferð um Fjallabak og uppsveitir Gnúpverjahrepps og Biskupstungur.
Tilgangur ferðarinnar var að prufukeyra ný fjórhjól af gerðinni Can Am Outlander Max XT-P og kanna betur hálendisslóðir.
Kjölur hefur átt fjórhjól af gerðinni Can Am sem útkallstæki í 17 ár og hafa þau reynst afar vel í útköllum og verkefnum innan sveitarinnar.
Gist var í Kirkjulækjarkoti fyrri nóttina og ekið á tveimur fjórhjólum og jeppa um Króksleið, Heklubraut og Dyngjuleið í Landmannalaugar á laugardeginum, þar sem gist var í bækistöð hálendisvaktar.
Veðrið bauð upp á rigningu með köflum en falleg fjallasýn var á milli skúra. Enn er töluvert af ferðamönnum á Fjallabaki og þurfti að bregðast við einu útkalli, þegar ferðamenn festu sig í Kirkjufellsósi.
Á sunnudeginum var haldið heim á Kjalarnes um Sigölduleið, línuveg við Stóru-Laxá og Skjaldbreið.
Nú taka við síðustu endurbætur á fjarskiptabúnaði og öðrum búnaði á fjórhjólunum sem munu eins og forverarnir bera kallmerkin: Kjölur 11 og 12.