30/12/2025
Kæru íbúar, ættingjar og samstarfsfólk
Ég vil byrja á að óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og vona að þið hafið átt góða daga yfir hátíðirnar.
Árið er búið að vera viðburðaríkt á Droplaugarstöðum og höfum við tekist á við stór verkefni á heimilinu. Erfiðast hefur verið að vera einungis með eina lyftu í húsinu í yfir hálft ár. Það er óafsakanlegt og vil ég nota þetta tækifæri til að biðjast velvirðingar á því hvað þetta hefur tekið langan tíma. Loks er komin ný lyfta og verið er að ganga frá í kringum hana og verður hún vonandi nothæf á næstu dögum. Gamla lyftan stóð sig vel þann tíma sem hún var eina lyftan, en búið er að panta nýja lyftu í stað hennar og mun útskipting hennar því verða skipulögð og taka stuttan tíma.
Í apríl fengum við fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins í heimsókn og var þá framkvæmd úttekt á eldhúsi/mötuneyti Droplaugarstaða. Í kjölfarið var skilgreiningu eldhússins breytt og flokkast það nú sem eldhús í flokki 3. Mötuneytið skal því starfa samkvæmt innra eftirliti í flokki 3, sem byggir á HACCP-kerfinu.
Úttektin leiddi í ljós 27 frávik, 2 ábendingar og eitt alvarlegt frávik. Í framhaldi af því hefur verið unnið markvisst að úrbótum og breytingum á eldhúsinu til að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið.
Breytingarnar ganga vel og er stefnt að því að uppfylla öll sett skilyrði á komandi ári og þar með tryggja áframhaldandi starfsleyfi. Breytingarnar munu verða sýnilegar í starfseminni; nýir matarvagnar hafa verið teknir í notkun (þeir eru þegar komnir á fyrstu og aðra hæð), ný hrærivél og hitamælar hafa verið keyptir, auk þess sem gátlistar hafa verið endurskoðaðir og fjölgað og ný vinnubrögð innleidd.
Jafnframt hefur verið komið á lofttæmingarpökkun matvæla, nýjar hillur settar í kæli og frysti, hraðkælir tekinn í notkun og keypt fjölmörg ný áhöld sem gerðar eru kröfur um samkvæmt reglum. Einnig stendur til að gera breytingar á húsnæðinu. Innri hluti iðjuþjálfunar mun færast undir starfsemi eldhússins og iðja fá í staðinn hluta af matsalnum, sem þó verður áfram opnanlegur og stækkanlegur við viðburði. Kaffiaðstaða mun færast í tengslum við þessar breytingar. Unnið er að fullnaðarhönnun breytinganna og að koma þeim í gegnum viðeigandi skipulagsferli. Vonir standa til þess að með þessum aðgerðum verði áfram unnt að elda mat í húsinu og ekki þurfi að grípa til þess að fá aðsendan mat. Mikil ábyrgð hvílir á Ágústi, yfirmatreiðslumanni, sem leiðir þessa vinnu og ber ábyrgð á því að maturinn sé öruggur, vandaður og að allir fái mat við sitt hæfi.
Fjöldi heimilismanna eru 83. Að jafnaði starfa um 160 starfsmenn á Droplaugarstöðum í um 114 stöðugildum. Kynjaskipting starfsmanna er um 60% konur og 40% karlar, sem endurspeglar að nokkru leyti kynjaskiptingu heimilismanna. Á árinu létust 30 íbúar, 12 karlar og 18 konur. Í stað þeirra komu 13 karlar og 17 konur. Andinn á heimilinu hefur verið afar góður og eru margir íbúar hressir og virkir þátttakendur í daglegu lífi og viðburðum. Til marks um þann góða anda sem ríkir má nefna að um 40 manns snæddu saman í matsalnum á aðfangadag.
Fjöldi nýrra íbúa og nýrra starfsmanna er ávallt áskorun í starfseminni og því skiptir miklu máli að móttaka og aðlögun sé fagleg og vel skipulögð. Þetta á bæði við um móttöku nýrra starfsmanna og ekki síður ummóttöku nýrra íbúa og aðstandenda þeirra. Góð móttaka og skýrt ferli auðveldar öllum að aðlagast nýjum aðstæðum. Lögð er sérstök áhersla á að þetta ferli gangi vel fyrir sig, að íbúar aðlagist heimilinu, kynnist starfseminni og upplifi öryggi, á sama tíma og starfsfólk fái góða þjálfun og tækifæri til að kynnast þeim íbúum sem það sinnir. Með þessu skapast betra samstarf, aukin gæði í þjónustu og innihaldsríkara daglegt starf.
Við vinnum öll að sama markmiði hér á Droplaugarstöðum að hafa hag íbúa okkar að leiðarljósi í öllu sem við gerum. Droplaugarstaðir er Eden-vottað heimili og það þýðir að við leggjum okkur fram um að mæta hverjum íbúa á hans eigin forsendum. Við leggjum ríka áherslu á að þekkja íbúana, sögu þeirra og lífshlaup, til að geta skilið betur þarfir þeirra, óskir og langanir. Samstarf við ættingja, gæðakerfið okkar og ábendingar frá ykkur eru afar mikilvægir þættir í því að gera gott starf enn betra. Við hvetjum ykkur að senda okkur ábendingar. Það er auðvelt með símanum, með því að skanna QR kóðann og skrá það sem þið viljið koma á framfæri. Við viljum heyra allt því. þannig getum við stöðugt bætt okkur og allt heimilishaldið, með íbúana í öndvegi
Við leggjum áherslu á að gleðjast yfir litlu hlutunum. Hér er unnið metnaðarfullt starf með það að markmiði að gleðja íbúa og viðhalda færni þeirra, hvort sem er með iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun eða daglegu lífi. Reglulega eru viðburðir í salnum okkar og skipulagt starf fer fram á öllum hæðum. Einnig höfum við byggt upp gott samstarf við ungt fólk, meðal annars Listaháskóla Íslands, sem kom með stór og skemmtileg verkefni til okkar á árinu. Við viljum halda áfram á þeirri braut og efla slíkt samstarf enn frekar.
Rekstur stórs hjúkrunarheimilis felur í sér fjölbreytt verkefni og áskoranir. Við tökumst á við þær áskoranirnar í starfseminni af metnaði, en líka raunsæi og auðmýkt. Það er ekki alltaf auðvelt að vera aðstandandi né starfsmaður á hjúkrunarheimili, en við eigum öll sameiginlegt markmið,að gera ævikvöld íbúa okkar eins gott og við mögulega getum.
Ég óska ykkur og okkur öllum alls hins besta á nýju ári og þakka kærlega fyrir árið sem senn er liðið. Það eru forréttindi að starfa í þjónustu eins og þeirri sem við veitum hér á Droplaugarstöðum og ekki síður að starfa með því öfluga og hlýja fólki sem hér vinnur.
Megi árið 2026 verða okkur gott og gæfuríkt og styrkja enn frekar það góða starf sem hér er unnið.
Jólakveðja, Jórunn