Landssamtökin Geðhjálp

Landssamtökin Geðhjálp Samtök þeirra sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Gildi Geðhjálpar eru hugrekki, mannvirðing og samhygð

Geðhjálp eru samtök notenda, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks með geðraskanir og geðfötlun í samfélaginu. Samtökin vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga og þekkingarmiðlun.

Mjög áhugavert samtal Jaakko Seikkula og Robert Whitaker um Open Dialogue.
30/07/2025

Mjög áhugavert samtal Jaakko Seikkula og Robert Whitaker um Open Dialogue.

Jaakko Seikkula joins us on the MIA podcast to discuss how Open Dialogue came to be, the research that shows its positive outcomes, how psychiatry has failed to learn from Open Dialogue practice and more.

Lokað er hjá Geðhjálp frá 14. júlí en öllum fyrirspurnum sem berast í tölvupósti verður svarað þegar skrifstofan opnar a...
11/07/2025

Lokað er hjá Geðhjálp frá 14. júlí en öllum fyrirspurnum sem berast í tölvupósti verður svarað þegar skrifstofan opnar aftur 5. ágúst. Frekari upplýsingar eru á gedhjalp.is. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er alltaf opinn, sem og sími Píeta samtakanna, sem er 552-2218.

Ef um neyðartilvik er að ræða er hægt að hringja í 112 eða leita á bráða- og ráðgjafarþjónustu geðsviðs Landspítalans. Þar er opið allan sólarhringinn en opnunartími á Hringbraut er 12-19 virka daga og 13-17 á frídögum en á öðrum tímum er móttakan á bráðamóttöku í Fossvogi.

Í 1.129 daga hefur Al­þingi hunsað jaðarsettasta hóp sam­fé­lagsinsÍ frétt á Samstöðinni þann 9. júlí sl. var fjallað um...
10/07/2025

Í 1.129 daga hefur Al­þingi hunsað jaðarsettasta hóp sam­fé­lagsins

Í frétt á Samstöðinni þann 9. júlí sl. var fjallað um málefni Bjargs, sem er herbergjasambýli á Seltjarnarnesi. Þar komu fram sláandi lýsingar á aðbúnaði fjögurra íbúa Bjargs, en í inngangi fréttarinnar segir:

„Þessi frásögn er ekki endilega um hvað gerist þegar einkaaðilar sinna opinberri heilbrigðisþjónustu eða hvað mér finnst um slíkt fyrirkomulag yfirhöfuð, ekki hvernig eftirlit með starfsháttum virðist í höndum rekstraraðila og velunnara né um ákveðnar persónur. Ölluheldur fjallar hún um sinnuleysi, lélegt utanumhald, gegnumgangandi og kerfislæga óvirðingu í garð fatlaðs fólks og mannfjandsamlegt kerfi sem fjársvelt reiðir sig á útvistanir sjálfsagðrar almenningsþjónustu. Það skal einnig tekið fram að það starfsfólk sem ég ræddi við mætir til vinnu sinnar daglega af hugsjón og umhyggju fyrir fólkinu sem um ræðir í bland við eigin afkomuótta.“

Geðhjálp hefur í mörg ár bent á eftirlitsleysi og úrræðaskort þegar kemur að þeim einstaklingum sem eru hvað jaðarsettastir í samfélaginu. Það er átakanlegt að lesa þessa frásögn frá Bjargi þar sem í hverri línu birtist hið fullkomna áhugaleysi stjórnvalda gagnvart þeim hópi sem Bjarg og önnur úrræði hafa sinnt.

Á Alþingi setja menn hvert Íslandsmetið í málþófi en það er ekki vegna daglegra mannréttindabrota og eftirlitsleysi gagnvart aðbúnaði íbúanna á Bjargi og meðferð á þeim eða öðrum skjólstæðingum geðheilbrigðiskerfisins. Það fór ekki mínúta af ræðutíma í þann hóp á nýliðnu þingi þrátt fyrir að tilefnið væri ærið.

Hvar er rannsóknarnefndin?

Í kjölfar alvarlegra ábendinga vorið 2021, sem komu annars vegar fram í tengslum við vistheimilið Arnarholt og hins vegar í tengslum við geðdeildir Landspítalans, var þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi um að fela forsætisráðherra að láta framkvæma úttekt til að ná utan um umfang vanrækslu og hugsanlegra lögbrota.

Forsætisráðherra setti í kjölfarið á laggirnar nefnd sem safnaði ítarlegum upplýsingum um starfsemi vistheimila fyrir fullorðið fatlað fólk með þroskahömlun og fullorðna með geðrænan vanda. Sérstök áhersla var lögð á aðbúnað og meðferð vistmanna á nýliðnum árum allt til dagsins í dag vegna mikilvægis þess að horfa ekki bara til fortíðar heldur einnig til nútímans.

Nefndin skilaði forsætisráðherra skýrslu sinni í byrjun júní 2022. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:

• Nefndin lagði til að rannsóknin færi fram samkvæmt fyrirmælum laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Slíkt fyrirkomulag gæfi rannsóknarnefndinni sjálfstæði, styrkar rannsóknarheimildir og væri í samræmi við þann vilja Alþingis að almenn lög gildi almennt um slíkar rannsóknir.
• Þá var lagt til að rannsóknartímabilið yrði annars vegar frá 1970 - 2011 og hins vegar frá 2011 og til dagsins í dag.
• Nauðsynlegt væri að fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda yrði á meðal nefndarmanna.
• Lögð var þung áhersla á að gæta þess að fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda fengi fullnægjandi aðstoð við að koma málum sínum á framfæri við nefndina og fylgja þeim eftir.

Forsætisráðherra fól velferðarnefnd þá um sumarið að ljúka málinu og leggja fyrir þingið til samþykktar. Síðan eru liðnir 1.129 dagar og þetta mál hefur enn ekki fengið afgreiðslu úr velferðarnefnd.

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp hafa ítrekað sent inn fyrirspurnir á forsætisráðuneytið, velferðarnefnd og þingflokksformenn allra flokka þingsins til að reka á eftir málinu en ekkert hefur til rannsóknarnefndarinnar spurst.

Höfundur: Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Opið er fyrir umsóknir í Bataskóla Íslands í haust en skólinn býður upp á fjölbreytileg námskeið sem öll fjalla um bata ...
08/07/2025

Opið er fyrir umsóknir í Bataskóla Íslands í haust en skólinn býður upp á fjölbreytileg námskeið sem öll fjalla um bata á einhvern hátt nemendum að kostnaðarlausu.

Bataskólinn er hugsaður fyrst og fremst fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem glíma við geðrænar áskoranir en hann er einnig opinn aðstandendum og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði.

Batamiðað nám um geðheilsu og bætt lífsgæði. Um námskeiðin Við bjóðum upp á úrval vandaðra námskeiða sem öll fjalla um geðheilsu og bata. Öll getum við glímt við geðrænar áskoranir einhvern tímann á ævinni og öll eigum við von um bata og betri líðan. Markmið okkar ...

„Börn fremja fleiri ofbeldisbrot en nokkru sinni,“ er fyrirsögn greinar sem birtist á mbl.is í dag. Er þarna vitnað í ný...
01/07/2025

„Börn fremja fleiri ofbeldisbrot en nokkru sinni,“ er fyrirsögn greinar sem birtist á mbl.is í dag. Er þarna vitnað í nýútkomna skýrslu Stjórnarráðs Íslands: „Áætlun fyrir aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum“.

Í þessari skýrslu er að finna gögn frá lögreglu og Barnaverndarstofu þar sem farið er yfir áhættuhegðan barna o.fl. Þessar tölur mátti einnig finna í svörtum skýrslum um börn sem komu út á síðasta ári. Þar kom m.a. fram að meiriháttar og stórfelldum líkamsárásum ungmenna hafði fjölgað um 188% frá árinu 2019. Þar kom líka fram að börn væru vistuð í einkareknum búsetuúrræðum þar sem fagmennsku skorti og eftirliti væri ábótavant. Síðastliðið ár voru börn í vanda vistuð í fangageymslum í Hafnarfirði vegna skorts á viðeigandi úrræðum.

Svar stjórnvalda við þessari stöðu og þessum vanda má sjá í fjármálaætlun til ársins 2030. Þar kemur fram að framlög til forvarna, lýðheilsu og umhverfis barna í grunnskólum verða skorin niður um samtals 5,7 ma.kr. Á sama tíma er gert ráð fyrir 11 ma.kr. innspýtingu til öryggis- og varnarmála. Eftir fjölmarga neyðarfundi í NATO var síðan tekin ákvörðun um að stefna á að útgjöld til öryggis- og varnarmála verði 70 ma.kr. innan 10 ára. Forgangsmál á Íslandi hafa víst aldrei snúist um börn.

Viðvörunarbjöllur sl. fimm ár

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi strax í upphafi Covid faraldursins frá sér yfirlýsingu þar sem varað var við áhrifum faraldursins á geðheilsu til skemmri og lengri tíma. Var sérstaklega bent á að horfa þyrfti til geðheilsu barna og þeirra sem væru í viðkvæmri stöðu. Kreppur sl. 100 ára voru fyrst og fremst efnahagslegar og því er erfitt að leita í söguna til að spá fyrir um afleiðingar.

Einangrun, ótti, samfélagsmiðlar, falsfréttir o.fl. gerðu þessa kreppu flóknari en aðrar kreppur í sögunni. Líkindi væri helst að finna í löndum þar sem einstaklingar hafa búið við skert frelsi vegna stjórnmálaskoðana eða stríðsástands. Geðhjálp benti stjórnvöldum ítrekað á þessa yfirlýsingu og þær viðvörunabjöllur sem sjá mátti í geðheilsuvísum ár hvert í kjölfarið.

WHO sendi síðan frá sér aðra yfirlýsingu þann 8. október 2021, þar sem m.a. eftirfarandi kom fram:

Samantekt, sem birt er í nýjum gagnagrunni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um geðheilbrigðismál, sýnir svart á hvítu að þjóðum heimsins hefur mistekist að bjóða þegnunum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Þetta gerist á þeim tíma sem mikilvægi þess að setja geðheilbrigðismál á oddinn hefur aldrei verið jafn brýnt.

Rannsóknir um skammtímaáhrif Covid á geðheilsu sérstaklega barna og ungmenna eru ekki margar og langtímaáhrifin eru ekki að fullu komin í ljós. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út skýrsluna Mental Health and COVID 19: Early evidence of the pandemic‘s impact í mars 2022 þar sem fyrstu gögn voru tekin saman. Þar komu fram sterkar vísbendingar um neikvæð áhrif sóttvarnaraðgerða á geðheilsu.

Sérstaklega er tekið fram að sjálfsvígstíðni barna og ungmenna hafi aukist og geðheilsu hrakað þar sem aðgerðir gegn veirunni voru umfangsmiklar. Mótvægisaðgerðir íslenskra stjórnvalda voru afar takmarkaðar og áherslan eins og nær alltaf á efnahagslega þætti og þarfir atvinnulífsins.

Hvar er farsældin?

Verðmætamat okkar þarf að breytast. Efnishyggjan hefur því miður fengið að ráða allt of lengi. Síaukin neysla okkar festir okkur í eltingaleik sem skilur lítið eftir sig og er svo sannarlega ekki vinasamlegur geðheilsu okkar. Þegar veiran herjaði á okkur var engu til sparað þegar kom að mannafla eða fjármagni.

Þegar fjalla á um kvótakerfið þá mæta allir á dekk í umræðuna og linna ekki látunum fyrr en þeirra sjónarmið verður ofan á. Við þurfum að horfa þannig á geðheilbrigðismál og þá sérstaklega barna- og ungmenna. Að átta okkur á afleiðingum þeirrar stefnu sem nú er í gangi og leiðrétta hana.

Hvar er þríeykið?

Hvar eru greiningardeildir bankanna?

Hvar er stuðningsnet fyrir verðandi foreldra og stuðningur fyrstu tvö árin í lífi barna?

Hvar eru meðferðarúrræði barna?

Hvar er farsældin?

Hvers vegna er þykir það eðlilegt að auka framlög til öryggis- og varnarmála um 11 ma.kr. en draga á sama tíma úr framlögum til geð- og lýðheilsu barna um 5,7 ma.kr.?

Hvar er 100 klst. umræða um málefni barna á Alþingi?

Hvers vegna þykir eðlilegt að allir sem starfa í banka hafi viðskiptapróf úr háskóla á sama tíma og það þykir eðlilegt að 80% þeirra, sem starfa á geðdeildum og stofnunum þar sem fólk með geðrænan vanda dvelur, séu ófagmenntaðir?

Þessi listi er ekki tæmandi. Því miður eru engar líkur á því að þingið fresti sumarfríum vegna alvarlegrar stöðu barna á Íslandi. Svörtu skýrslurnar sem birtar voru sumarið 2024 og svörtu skýrslurnar núna hafa mér vitandi ekki fengið svo mikið sem mínútu umfjöllun á Alþingi.

Það virðist ekki vera heilög skylda þingmanna að ræða þessa stöðu. Það eru vonbrigði.

Höfundur: Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Tveir þriðju Íslendinga hafa upplifað sálræn áföll í æsku og sá hópur er líklegri til að glíma við heilsufarsvanda á ful...
30/06/2025

Tveir þriðju Íslendinga hafa upplifað sálræn áföll í æsku og sá hópur er líklegri til að glíma við heilsufarsvanda á fullorðinsárum.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á sálrænum áföllum í æsku og heilsufarsvanda á fullorðinsárum sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins og fjallað er um á ruv.is.

Rannsóknin er hluti af meistaraverkefni Veru Sifjar Rúnarsdóttur í heilbrigðisvísindum, en hún sérhæfir sig í áföllum og ofbeldi og starfar sem ráðgjafi í geðrofs- og samfélagsgeðteymi Landspítala.

Barnaverndarstofa sendi í gær frá sér skýrslu um fjölda barnaverndartilkynninga á árunum 2022 til 2024. Skýrslur og anna...
26/06/2025

Barnaverndarstofa sendi í gær frá sér skýrslu um fjölda barnaverndartilkynninga á árunum 2022 til 2024. Skýrslur og annað sem kemur út á vegum stjórnvalda á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst, fær nær enga athygli í samfélagsumræðunni eða í þingsal vegna sumarleyfa.

Þannig var það einmitt með skýrslu Umboðsmanns Alþingis um einkarekin úrræði fyrir börn, sem kom út í júlí 2024 og fékk litla umfjöllun þrátt fyrir hreint sláandi upplýsingar um hvernig farið er með börn á Íslandi. Sama var upp á teningnum með skýrslu Ríkislögreglustjóra „Ofbeldi barna – staðan og áskoranir“, sem kom út í lok júní það ár, en myndin sem þar var dregin upp af stöðu mála var kolsvört.

Þingið er vissulega að störfum í dag en það verður að teljast harla ólíklegt að svört skýrsla Barnaverndarstofu falli undir skilgreiningu þingmanna um það hvað sé „heilög skylda“ þeirra að fjalla um eins og þingmaður komst að orði á dögunum. Börn eru jú hvorki veiðigjöld né öryggis- og varnarmál.

Áhættuhegðun barna

Þegar skýrsla Barnaverndarstofu er skoðuð þá er endurspeglar hún þau rauðu blikkandi ljós sem mátti lesa greina í skýrslunum tveimur sem og í öðrum geðheilsuvísum sl. áratug. Vanlíðan, ofbeldi og geðlyfjanotkun barna hefur aukist verulega á örfáum árum. Hér verður fjallað um þann hluta skýrslunnar sem fjallar um áhættuhegðun barna.

Árið 2022 bárust barnaverndarnefndum landsins 3.942 tilkynningar sem flokkaðar voru sem áhættuhegðun barna. Árið 2023 voru þær 4.931 og í fyrra voru tilkynningarnar 5.648.

Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði því samtals um 43% á tímabilinu, 41% hjá drengjum og 47% hjá stúlkum. Það eru nokkrir undirflokkar í áhættuhegðun barna en þrír skoðaðir nánar hér: áfengis- og vímuefnaneysla, afbrot og barn beitir ofbeldi.

Áfengis- og vímuefnaneysla barna hefur aukist sl. ár og íslenska leiðin í forvörnum, sem við höfum ferðast með og kynnt út um allan heim sl. tvo áratugi, virðist hafa verið siglt í strand eða er hreinlega sokkin.

Tölurnar í skýrslu Barnaverndarstofu sýna það svart á hvítu. Tilkynningum um áfengis- og vímuefnaneyslu barna fjölgaði um 72% og fjölgaði um 57% hjá drengjum og 93% hjá stúlkum. Afbrota- og ofbeldistilkynningum fjölgaði um 35% til 47% og var aukningin mest hjá stúlkum.

Keisarinn er klæðalaus enn eina ferðina

Það verður að segjast eins og er að á tímum farsældar og fagurgala um að sérstök áhersla sé á málefnum barna og geðheilbrigði eru þessar niðurstöður beinlínis afhjúpun þeirrar staðreyndar að keisarinn er ekki í neinum fötum. Ástandið á Stuðlum, vistun barna í fangaklefum, brottfall barna úr skólum, skýrslurnar sem vitnað var til frá árinu 2024 o.m.fl. staðfesta þetta klæðaleysi.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar má lesa eftirfarandi fyrirheit í tengslum við geðheilbrigðismál og börn:

• Þá er áhersla lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og efla meðferðarúrræði vegna fíknivanda.
• Sérstaklega skal efla aðgengi barna og ungmenna að íþróttum, listum og frístundastarfi.
• Ríkisstjórnin setur málefni barna og ungmenna í öndvegi og hefur boðað sókn í menntamálum með áherslu á bætt umhverfi nemenda og kennara, íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum, stuðning við menntakerfið, inngildingu, snemmtæka íhlutun, sí- og endurmenntun og raunfærnimat. Stefna málefnasviðs 22 endurspeglar þær áherslur.
• Forvarnir verða efldar til að bæta heilsu og unnið verður að því að draga skipulega úr skriffinnsku í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og hagnýta betur tæknilausnir og nýsköpun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála til hagsbóta fyrir landsmenn alla óháð búsetu.

Hvað varðar að efla aðgengi barna og ungmenna að íþróttum, listum og frístundastarfi þá er í sömu fjármálaáætlun dregið úr framlögum til málaflokksins um 3,5 ma.kr. á tímabilinu. Sóknin í málefnum barna og áherslan á bætt umhverfi þeirra er verðlögð með sparnaði upp á 1,5 ma.kr. Það á einnig að efla forvarnir með því að draga úr framlögum til málaflokksins um 700 m.kr. tímabilinu.

Það segir sig sjálft að aðgengi verður ekki aukið, umhverfi barna verður ekki bætt og forvarnir ekki efldar með tæplega 10% niðurskurði fjármagns. Framlög í forvarnir, lýðheilsu og umhverfi barna í grunnskólum eru skorin niður um samtals 5,7 ma.kr. Á sama tíma er gert ráð fyrir 11 ma.kr. innspýtingu til öryggis- og varnarmála. Börn eru alla vega ekki öryggis- og varnarmál – það er alveg ljóst.

Hlustum á það sem einkennin eru að segja okkur

Allt það sem kemur fram í skýrslunum þremur sem hér hafa verið nefndar er dæmi um einkenni ástands. Orsakirnar liggja víða en einkennin eru hér beinlínis að öskra á okkur að bregðast við. Við höfum hingað til hent milljörðum á milljarða ofan í aðgerðir til höfuðs þessum einkennunum en lítið sem ekkert gefið orsökunum gaum.

Við getum ekki lengur reynt að lyfja okkur frá þessum vanda eða sópa honum undir teppið með því t.d. að senda börn á einkareknar stofnanir sem fá falleinkunn þá sjaldan eftirliti er sinnt. Með því erum við í besta falli að fresta vanda en líklega að auka hann verulega með tilheyrandi harmi og gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir samfélagið. Förum því fyrir ofan fossinn í stað þess að halda áfram á þessari leið. Einbeitum okkur að orsökunum – við gætum t.d. byrjað á þessu:

• Setjumst niður og gerum sáttmála um það að leiðrétta innviðaskuld okkar við börn og velferðarkerfið almennt.
• Styðjum verðandi foreldra og fræðum alla meðgönguna. Styðjum þau áfram eftir fæðingu barns.
• Gerum foreldrum efnahagslega kleift að vera með barni sínu fyrstu tvö árin.
• Afstofnanavæðum æskuna og setjum þarfir fjölskyldna í öndvegi í stað atvinnulífsins.
• Stokkum upp öll skólastig barna- og ungmenna með áherslu á þarfir barna og þroska.
• Endurskoðum hlutverk skóla, færum ábyrgð á uppeldi aftur til foreldra og drögum þannig úr útvistun æskunnar og uppeldis barna.
• Hverfum frá sjónarmiðum einstaklingshyggju þegar kemur að búsetu og setjum áherslu á samveru með t.d. kynslóðabúsetukostum.
• Stokkum upp í félags- og heilbrigðiskerfinu þannig að batamiðuðum úrræðum fjölgi en óskilvirkar og einkennamiðaðar lausnir verði lagðar á hilluna.
• Endurskoðum verðmætamat samfélagsins og áttum okkur á því að hagvöxtur er vondur mælikvarði á velgengni okkar.
• Gerum nýja fjármálaáætlun þar sem það verður heilög skylda okkar að vernda börn.

Höfundur: Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Í haust mun fara fram 13 daga þjálfun í í gagnlegum aðferðum í tengslum við raddir og aðra óhefðbundna skynjun með Trevo...
24/06/2025

Í haust mun fara fram 13 daga þjálfun í í gagnlegum aðferðum í tengslum við raddir og aðra óhefðbundna skynjun með Trevor Eyles, Nina Falkenlove Lauridsen, Michael Cidlik, Anders Schakow og Maria Winther Osmundsen.

Markmið þessa námskeiðs er að styðja, leiðbeina og kenna þeim sem vilja vinna að því að stofna hópa fyrir raddheyrendur og kenna aðferðir og leiðir fyrir þau sem vinna í dag með þeim sem heyra raddir.

Þjálfunin býður upp á aðra nálgun en þá sem hefur verið viðtekin sl. áratugi í geðheilbrigðiskerfinu. Þessi nýja nálgun gengur í stuttu máli út á að skilja, vinna með og eiga samvinnu við raddheyrendur og raddir þeirra. Nálgunin byggir á samtali, er áfallamiðuð og styðjandi.

Þjálfunin er 86 klst. og fer fram á ensku frá kl. 08:30 til 15:30 og verður á höfuðborgarsvæðinu dagana 1. til 5. september, 29. september til 3. október og 18. til 20. nóvember 2025. Hún er ætluð starfsfólki í geðheilbrigðis- og félagsþjónustu, raddheyrendum, aðstandendum og öllum þeim sem hafa áhuga á að læra og tileinka sér nýjar leiðir.

Verðið fyrir námskeiðið er 150.000 kr. en auk þjálfunarinnar er kaffi og létt hressing að morgni og eftir hádegi innifalin. Öryrkjum, raddheyrendum og öðrum, sem kunna að hafa áhuga og gagn af þjálfuninni en fjárhagsaðstæður koma í veg fyrir það, stendur til að boða að sækja um gjaldfrjálsa þátttöku.

Styrktarsjóður geðheilbrigðis auglýsir eftir umsóknum í fimmta sinn en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í ge...
10/06/2025

Styrktarsjóður geðheilbrigðis auglýsir eftir umsóknum í fimmta sinn en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna og rannsókna sem bætt geta geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.

Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að 25 m.kr. verði til úthlutunar í ár en það er hæsta upphæðin til þessa. Í ár verður sérstaklega horft til umsókna sem miða að bættri geðheilsu barna og ungmenna. Sjóðnum barst rausnarleg gjöf í apríl sl. frá Skúla Helgasyni en hann safnaði 3,4 m.kr. í tengslum við 60 ára afmæli sitt sem skyldu renna í verkefni tengd þessum áherslupunkti ársins hjá sjóðnum.

Heilt yfir er horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir eru metnar:

a. Geðheilsa barna og ungmenna
b. Valdefling notenda
c. Valdefling aðstandenda
d. Mannréttindi og jafnrétti
e. Nýsköpun

Í ár mun fagráð sjóðsins auk þess horfa til færri og stærri verkefna sem geta náð yfir lengri tíma en eitt ár. Með þessu er ekki verið að útiloka önnur verkefni heldur aðeins að bjóða upp á þennan möguleika og þannig hugsanlega hraða uppbyggingu og innleiðingu mikilvægra verkefna.

Umsóknarfrestur er frá 10. júní til og með 5. september 2025. Fimm manna fagráð metur innsendar umsóknir og leggur tillögur að úthlutun styrkja fyrir sjóðsstjórn til ákvörðunar. Sótt er um í gegnum heimasíðu sjóðsins: gedsjodur.is.

Stjórn og fagráð Styrktarsjóðs geðheilbrigðis 2025 til 2026:

Stjórn: Svava Arnardóttir, formaður, Héðinn Unnsteinsson og Haraldur Flosi Tryggvason.

Fagráð: Helga Sif Friðjónsdóttir, formaður, Páll Biering, Salbjörg Bjarnadóttir, Hrannar Jónsson og Þórður Páll Jónínuson.

Nánar um skipulag og sögu sjóðsins:

Á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar í maí 2021 var skipulagsskrá sjóðsins samþykkt með 100 m.kr. stofnframlagi samtakanna auk 10 m.kr. viðbótarframlags sem ætlað til fyrstu úthlutunar. Geðhjálp hefur frá þeim tíma lagt sjóðnum til 200 m.kr. til viðbótar. Höfuðstóll sjóðsins stendur í dag í 240 m.kr. en hann má aldrei skerða.

Styrkupphæð hvers árs miðast annars vegar við verðtryggða ávöxtun höfuðstólsins og hins vegar af öðrum tekjum (gjöfum og framlögum). Frá fyrstu úthlutun í október 2021 hefur sjóðurinn styrkt 65 verkefni um samtals 60 m.kr. Styrkupphæðir hafa verið frá 150 þús. til 3,5 m.kr.

Hefur þú upplifað nauðung, þvingun eða aðra vanvirðandi meðferð/refsingu innan geðheilbrigðiskerfisins?Geðhjálp, ÖBÍ og ...
28/05/2025

Hefur þú upplifað nauðung, þvingun eða aðra vanvirðandi meðferð/refsingu innan geðheilbrigðiskerfisins?

Geðhjálp, ÖBÍ og Þroskahjálp vinna saman að skuggaskýrslu tengt innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Við hjá Geðhjálp leggjum sérstaka áherslu á grein 14 "Frelsi og öryggi einstaklingsins" og grein 15 "Frelsi frá pyntingum eða grimmdarlegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu".

Við leitum til fólks með persónulega reynslu af nauðung, þvingun eða annarri vanvirðandi meðferð innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins þar sem við viljum, með ykkar leyfi, safna saman upplifunum ykkar og nota í skýrsluskrifunum.

Þetta er tækifæri til að láta rödd ykkar heyrast og koma ábendingum á framfæri til yfirvalda. Við viljum sjá þvingunarlaust Ísland, að mannréttindi fólks séu virt til fulls og að við fáum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.

Ef þú hefur áhuga á því að deila þinni reynslu, þá geturðu smellt á formið hér fyrir neðan í athugasemd við þessa færslu og tekið þátt.

Áhugavert viðtal á RÚV við Þórarinn Freysson geðhjúkrunarfræðing sem starfað hefur á bráðamóttöku í London í tuttugu og ...
26/05/2025

Áhugavert viðtal á RÚV við Þórarinn Freysson geðhjúkrunarfræðing sem starfað hefur á bráðamóttöku í London í tuttugu og fimm ár en hefur síðustu ár sérhæft sig í starfi á sérstakri geðheilbrigðisneyðarmóttöku.

„Ímyndaðu þér til dæmis manneskju sem er í sjálfsmorðshugleiðingum eða manneskju sem er í geðhvörfum og er kannski með ranghugmyndir um að fólk sé á eftir sér. Það er hrætt og veit ekki hvað það á að gera og kemur inn á bráðamóttöku þar sem er rosalega mikið að gera, slasað fólk, mikill hávaði og mikill umgangur. Svo ertu ekki settur í sérstakan forgang vegna þess að það þarf ekki að bjarga lífi þínu líkamlega.“

Úr þessu er bætt á neyðarmóttökunni að sögn Þórarins. „Á innan við tíu mínútum ertu búinn að sjá sérfræðing í geðrænum vandamálum, annaðhvort hjúkrunarfræðing eða lækni. Við erum strax byrjuð að tala við þig í umhverfi sem er miklu rólegra, hljóðlátara og hentugra fyrir þessa starfsemi,“ segir Þórarinn.

Address

Guðrúnartún 1
Reykjavík
105

Opening Hours

Monday 09:00 - 15:00
Tuesday 09:00 - 15:00
Wednesday 09:00 - 15:00
Thursday 09:00 - 15:00
Friday 09:00 - 12:00

Telephone

+3545701700

Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Landssamtökin Geðhjálp posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Contact The Practice

Send a message to Landssamtökin Geðhjálp:

Share