07/01/2026
Elsku vinir, okkar allra bestu óskir um gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir það liðna. Árið 2025 verður okkur í Björkinni á margan hátt minnisstætt. Árið 2025 voru liðin 15 ár frá fyrstu heimafæðingunni sem Bjarkarljósmæður tóku þátt í. Um vorið voru svo 8 ár liðin frá því við opnuðum fæðingarheimilið okkar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum árum.
Þegar fæðingarheimilið okkar hóf starfsemi vorið 2017 eftir 2 ára þrotlausa vinnu við undirbúning þess hafði ekki verið starfandi fæðingarheimili á Íslandi í rúm 20 ár. Eitt af okkar stærstu markmiðum var að hafa áhrif á barneignarþjónustuna á Íslandi, að riðja brautina, svo auðveldara yrði fyrir önnur fæðingarheimili að opna í kjölfarið. Draumurinn var að fæðingum utan spítala fjölgaði með fleirri valkostum.
Það er óhætt að segja að sá draumur hafi orðið að veruleika og nú eru starfandi tvö fæðingarheimili í Reykjavík og fæðingum utan spítala fer fjölgandi frá ári til árs. Til gamans má geta að árið 2016, áður en Björkin opnaði fæðingarheimilið þá voru heimafæðingar 85 en árið 2025 voru heimafæðingar og fæðingar á fæðingarheimilum alls um 270.
Fyrstu árin einkenndust af hröðum vexti sem fylgdu allskonar áskoranir en um leið var það ótrúlega gaman og gefandi að verða vitni af þeim breytingum sem urðu á örfáum árum. Nú finnum við fyrir ákveðnu jafnvægi og við þurfum ekki lengur að hlaupa eins hratt og áður og fyrir það erum við þakklátar. Árið 2025 gerðum við ýmsar breytingar á skipulaginu hjá okkur sem hefur haft jákvæð áhrif bæði á þjónustuna og vinnuumhverfi okkar ljósmæðranna. Ljósmæðrahópurinn okkar er nú aðeins minni en áður. Eftir stendur kjarninn í Björkinni og samanstendur ljósmæðrahópurinn af ljósmæðrum sem hafa flestar verið nánast frá byrjun ásamt Oddnýju Silju, nýrri ljósmóður sem bættist í hópinn í byrjun 2025. Við erum þakklátar öllum þeim dásamlegu ljósmæðrum sem hafa starfað með okkur í gegnum tíðina og fyrir fallegu sporin sem þær hafa skilið eftir sig í Björkinni og fáum við þeim seint full þakkað.
Björkin verður 17 ára í haust og á sér orðið þó nokkuð langa sögu. Við finnum það svo vel að Björkin okkar er á þeim stað sem við viljum að hún sé í dag. Okkur finnst við loks vera á uppskeru tímanum, getum nú staldrað við og horft yfir farinn veg, stoltar yfir því sem við höfum áorkað og fullar þakklætis fyrir þetta ævintýri sem Björkin er.
Framtíðin er björt og við fullar eftirvæntingar í upphafi nýs árs. Eins og áður leggjum við mesta áherslu á fæðingaþjónustuna okkar. Markmiðið er að veita verðandi foreldrum persónulega og faglega þjónustu í heimilislegu umhverfi, bæði á fæðingarheimilinu hjá okkur og í heimahúsum. Börnin sem við höfum tekið á móti eru nú að nálgast 1200 og áfram bætist í hópinn. Við höldum áfram að bjóða uppá námskeiðin okkar og brjóstagjafaráðgjafarnir hafa eins og alltaf nóg að gera við að styðja fjölskyldur á fyrstu vikum og mánuðum í brjóstagjöf.
Okkur þykir svo merkilegt að hugsa til þess að í gegnum alla sögu Bjarkarinnar, hefur alltaf allt verið eins og það á að vera. Stundum hafa breytingar komið til okkar, stundum höfum við þurft að taka flóknar ákvarðanir og við höfum svo sannarlega mætt alls konar áskorunum í gegnum árin en einhvern vegin lendum við alltaf á réttum stað og allt er eins og það á að vera ❤️