07/01/2021
Gleðilegt nýtt ár, ég er með "smá" tilkynningu.
Í upphafi átti Fitnestic að vera lítið hliðar ævintýri. Ég hafði alltaf þráð að þróa þjálfun sem byggði á öðrum grunni en að léttast fyrir útlitið og telja kaloríur. Það vatt svo sannarlega upp á sig og varð að einstöku ævintýri þar sem ég hef fengið að fylgja rétt yfir 3000 einstaklingum í sínu ferðalagi!
Mér við hlið hefur starfað yndislegt og metnaðarfullt samstarfsfólk. Ætla hér sérstaklega nefna hana Ásdísi Ingu. Hún stofnaði með mér formlega Fitnestic þjálfun árið 2015 sem var ein af fyrstu fjarþjálfunum sem einblíndi ekki einungis á mataræði og hreyfingu heldur einnig á andlegu hliðina. Þvílík forréttindi að fá hana með mér í lið. Ég mæli með að skoða hvað hún er að gera í dag ➡️ Break The Circle
Mörgum árum síðar lít ég yfir þetta "litla" hliðarævintýri og get ekki annað en tárast af gleði. Það hefur veitt mér mikla hamingju að fá að vinna með manneskjum sem treystu mér til að aðstoða sig í sinni vegferð. Þegar ég horfi í dag á þjálfunar bransann finn ég líka fyrir stolti. Markaðurinn og samfélagið er stútfullt af hæfum og flottum einstaklingum sem hafa ástríðu fyrir því að hjálpa öðrum að öðlast heilbrigðan líkama OG heilbrigt hugafar. Það er mikil breyting frá því að ég tók mín fyrstu skref 16 ára þegar ég fór í mína fyrstu einkaþjálfun.
Að því sögðu ætla ég að koma mér að ástæðunni fyrir þessum langa pistli en ég hef ákveðið að kveðja litla fyrirtækið mitt og halda af stað í nýtt ferðalag.
Ég trúi því sterkt að við öðlumst þetta líf meðal annars til þess að hafa jákvæð áhrif og gefa frá okkur góða orku. Þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag langaði mig til þess að hafa áhrif og skapa eitthvað sem 16 ára Alexöndru vantaði á sínum tíma. Ég finn það í hjarta mínu að ég hef náð þeim markmiðum sem ég setti mér í upphafi.
Hjá mér er að byrja nýr kafli og ég legg af stað í spennandi ferðalag en það er erfitt að kveðja þó það sé mikil spenna fyrir framhaldinu. Ég er að klára mastersnámið mitt á þessu ári og fótboltastelpan í mér þráir að vera hluti af stærra teymi með sameiginlegum markmiðum. Hver veit hvað tekur við en það sem ég veit fyrir víst er að það sem á að koma, kemur og ég ætla að taka því með opnum örmum og þakklæti.
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að kveðja þá yndislegu einstaklinga sem hafa fylgt mér í gegnum árin. Ég hef fengið að kynnast einstöku fólki í gegn um þetta ferli og það er ykkur að þakka að ég hef getað sinnt ástríðu minni í fullu starfi.
Takk fyrir að mæla með mér í öll þessi ár! Takk fyrir að treysta mér! Takk fyrir allt!
Kv. Alexandra Cruz Buenano 💞
📸Hér erum við Alexander Úlfur aðstoðarmaður að vinna saman í matarplönum