
04/09/2025
Forvitni og þakklæti - pistill í sumarlok🙏
Síðasta föstudag var ég í handleiðslutíma hjá henni Jennifer, frábærum þerapista og handleiðara sem ég hitti reglulega til að fá stuðning og aðstoð við að þroskast og vaxa bæði persónulega og í starfi mínu sem sálmeðferðarfræðingur. Það er nefnilega svo mikilvægt fyrir okkur sem sinnum velferðarstörfum að hafa stuðning við okkar eigið bak því starfið er oft flókið og krefjandi. Á sama tíma og það er ótrúlega áhugavert og gefandi!
Við vorum að ræða hvað væri í gangi hjá mér og hún benti mér á að ég væri mjög áhugasöm um að læra og fræðast. Haha segja kannski sumir núna, þeir sem þekkja mig vel hafa tekið eftir því. En í þetta sinn þá fór ég einhvern veginn að hugsa þetta öðruvísi - já mér finnst gaman að læra og þróa mig áfram í starfi, það gefur mér gleði og nærir lífsorkuna mína. Það tengist líka því að vera forvitin - að vita að það er svo margt sem ég veit ekki og er gaman að uppgötva. Þannig að ég gengst við því að til að þrífast almennilega í lífi og starfi er mikilvægt fyrir mig að rækta forvitnina og halda áfram að læra. Sem ég ætla svo sannarlega að gera og næsta námskeið er bara rétt handan við hornið😀. Fyrr í vikunni var ánægjuleg stund þar sem ég tók við staðfestingarskjali um að ég uppfylli þær kröfur um færni og þekkingu í EMDR meðferðarnálguninni sem þarf til að fá hæfnivottun sem EMDR meðferðaraðili. Það hefði ekki gerst án sterku EMDR frumkvöðlanna og EMDR samfélagsins hér á Íslandi sem ég er svo þakklát fyrir að tilheyra, takk fyrir mig elsku Gyða, Karen, Magga og Sigga ❤.
Ég er svo þakklát fyrir að fá að starfa við það sem ég brenn fyrir og gefur lífi mínu tilgang, þakklát fyrir að hafa tækifæri til að læra og bæta við mig þekkingu - og síðast en ekki síst þakklát fyrir manninn minn sem alltaf stendur við bakið á mér, fjölskylduna mína og samferðafólk, góða vini og samstarfsfólk❤.
Set hér inn nokkrar þakklætismyndir!