
15/09/2025
Dagana 12.–13. september 2025 tók Tilvera á móti systursamtökum sínum frá Norðurlöndunum. Þetta er í þriðja sinn sem þessi fundur fer fram, en hann er haldinn með dyggum stuðningi frá
Fundirnir eru vettvangur þar sem við ásamt systursamtökum okkar á Norðurlöndum komum saman til að miðla reynslu. Í ár var yfirskrift fundarins andlegur stuðningur fyrir fólk í frjósemismeðferðum.
Á föstudeginum buðum við gestum okkar að kynnast íslenskri náttúru og menningu með ferð um Reykjanesið. Þar gafst tækifæri til að efla tengsl milli þátttakenda í afslöppuðu umhverfi.
Laugardagurinn var tileinkaður formlegum fundarhöldum. Umræðuefnin voru fjölbreyttari en um andlegan stuðning en meðal annars var fjallað um:
• Reglur um gjafakynfrumur og þörfina fyrir samræmda norræna stefnu um fjölda barna frá einum gjafa
• Réttindi félagsmanna með áherslu á niðurgreiðslu meðferða og stuðning í meðferðarferlinu.
• Aðstæður einstaklinga á vinnumarkaði, sérstaklega í tengslum við fjarvistir vegna meðferða
Við fengum einnig góða gesti frá Livio. Þar kynntu Sesselja yfirhjúkrunarfræðingur og Ástdís sálfræðingur hvernig Livio styður einstaklinga í meðferðum. Gestirnir færðu fundargestum köku með kaffinu og viljum við þakka kærlega fyrir þann stuðning og þátttöku í fundinum.
Fundurinn sýndi enn á ný mikilvægi norræns samstarfs á þessu sviði. Þrátt fyrir að aðstæður, reglur og réttindi séu ólík eftir löndum, eigum við öll það sameiginlegt að vilja bæta aðgengi að meðferðum og styðja einstaklinga sem glíma við frjósemisvanda.
Við vonumst til að fá áframhaldandi styrk svo hægt verði að halda fund að nýju á næsta ári. Við teljum samstarf okkar innan þessa nets nauðsynlegt og lykilatriði til að efla réttindi og bæta þjónustu fyrir fólk á Norðurlöndum sem þarf á aðstoð í frjósemismálum að halda.
Með bestu kveðju,
Stjórn Tilveru
is