03/09/2025
Ný skilgreining á lesblindu til umsagnar
Alþjóðasamtök um lesblindu (IDA) hafa náð mikilvægum áfanga í viðleitni til að auka skilning og stuðning við einstaklinga með lesblindu. IDA hefur hafið alhliða verkefni til að endurskoða og endurmeta viðurkennda skilgreiningu sína á lesblindu frá árinu 2002. Sú skilgreining hefur stýrt rannsóknum, mótað menntastefnu, upplýst löggjöf og stutt ótal fjölskyldur um allan heim. Tillagan að endurskoðuninni er nú aðgengileg almenningi til skoðunar og athugasemda.
Þetta starf hófst árið 2024 í gegnum strangt og aðgengilegt ferli undir forystu stýrihóps um skilgreiningu á lesblindu, undir formennsku virtra sérfræðinga eða þeirra Dr. Charles Haynes, Dr. Malatesha Joshi og Dr. Hugh Catts. Nefndin er skipuð sérfræðingum, vísindamönnum og talsmönnum, allt virtum fræðimönnum og leiðtogum á sínu sviði og hefur notið stuðnings meira en hundrað ráðgjafa sem koma frá fjölbreyttum fræðigreinum sem túlka mismunandi sjónarmið innan lesblindusamfélagsins. Í ferlinu voru nýjustu vísindalegar niðurstöður skoðaðar, reynt var að innlima reynslu einstaklinga með lesblindu og þannig reynt að tryggja að endurskoðaða skilgreiningin væri alþjóðleg að umfangi, rannsóknarmiðuð og aðgengileg.
Endurskoðaða skilgreiningin er nú opin fyrir athugasemdum almennings. Kennarar, foreldrar, vísindamenn, stjórnmálamenn, einstaklingar með lesblindu og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að fara yfir tillöguna að skilgreiningunni og veita ábendingar. Ábendingar almennings munu hjálpa til við að tryggja að loka skilgreiningin sé skýr, aðgengileg og þýðingarmikil fyrir alla þá sem hún miðar að því að þjóna.
Gamla skilgreiningin lagði megináherslu á erfiðleika við að greina hljóð í orðum (phonological deficits) sem eina helstu orsakina. Nýja skilgreiningin er víðari og segir:
„Lesblinda er sértæk námsröskun sem einkennist af erfiðleikum við að lesa orð (nákvæmni, hraði eða bæði) og/eða stafsetningu, sem getur breyst eftir ritmáli. Þetta stafar af taugfræðilegum munstrum í heilanum, en er einnig undir áhrifum af umhverfi og kennslu.“
Hvers vegna er þetta nýtt? Jú nýja skilgreiningin tekur mið af rannsóknum sem sýna að lesblinda er ekki bara „hljóðvandamál“, heldur getur það tengst öðrum þáttum eins og erfiðleika við að vinna hratt með upplýsingar, bæði sjónrænar og heyrnar (temporal processing). Þetta þýðir að kennsla þarf að vera fjölhæfari, t.d. með áherslu á skilning, orðaforða og hraða, ekki bara að þekkja bókstafi (decoding). Rannsóknir frá 2023 (t.d. John Stein's yfirlit) benda til þess að gamla kenningin (phonological deficits) útskýri ekki öll tilvik, s.s. erfiðleika við stafsetningu eða að geta raðað bókstöfum sjónrænt með hraða (rapid automatized naming).
Við munum reyna að veita frekari upplýsingar um þessa nýju skilgreiningu.