
10/09/2025
Haustið er farið að sækja í sig veðrið og sumardagar orðnir færri síðustu vikur. Verkefni vetrarins eru farin að taka á sig skýrari mynd og ég hlakka til að takast á við þau.
Í þessari viku átti ég fund með Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra. Þetta var fyrsti fundur okkar frá því að ég tók við sem formaður Fíh og tvö málefni voru á dagskrá. Annars vegar íslenskukunnátta hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni og hins vegar staða stofnanasamninga.
Við ræddum fjölgun hjúkrunarfræðinga sem koma hingað til lands til starfa erlendis frá og bentum á skort á heildstæðu móttökuferli. Þá lögðum við áherslu á mikilvægi íslenskukunnáttu til að auðvelda inngildingu í samfélagið og til þess að tryggja öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustunni. Einnig ræddum við um skort á stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki, og fengum við góða hlustun. Fíh mun áfram tala fyrir heildstæðari og markvissari móttöku hjúkrunarfræðinga erlendis frá og vonandi sjáum við jákvæðar breytingar í þeim efnum.
Eins og flestir hjúkrunarfræðingar vita stöðvuðust viðræður um stofnanasamninga við heilbrigðisstofnanir ríkisins í júlí. Tókum við það mál upp við ráðherra. Áhersla Fíh í þessum samningum er að tryggja starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga og kom í ljós samstaða um innleiðingu á slíku kerfi á fundinum með ráðherra. Viðræðurnar gengu vel þar til í sumar, þegar þær stofnanir sem eftir stóðu drógu sig til baka. Nú þegar njóta 82% hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum landsins starfsþróunarkerfis.
Þeir hjúkrunarfræðingar sem enn hafa ekki fengið sambærilega samninga fylgjast náið með gangi mála og eru eðlilega orðnir óþreyjufullir. Við hjá Fíh skiljum þá vel og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ljúka stofnanasamningum allra hjúkrunarfræðinga, það stendur ekki á okkur.
Ég, ásamt formönnum Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Sjúkraliðafélags Íslands, höfum sameinast um að fylgja eftir ákalli sem við sendum frá okkur í sumar. Þar kröfðumst við þess að mönnunarmál yrðu sett í forgang hjá yfirvöldum og að heilbrigðisstofnanir fái fjármagn og heimildir til að manna störf út frá faglegum forsendum og í þágu skjólstæðinga (stofnanasamningar😉) ásamt fleiri atriðum.
Við formennirnir hittumst reglulega og förum yfir sameiginleg hagsmunamál sem eru mörg. Við eigum fund með heilbrigðisráðherra síðar í mánuðinum. Þar munum við leggja áherslu á að ábendingum Ríkisendurskoðunar sé fylgt eftir, að ráðuneytið hafi betri yfirsýn yfir heilbrigðisþjónustuna með skýrari stefnu, markmiðum og tengingu við fjármagn. Einnig teljum við brýnt að greina mannafla í heilbrigðisþjónustu og gera raunhæfa spá og aðgerðaráætlun um hvernig eigi að mæta sívaxandi þjónustuþörf samfélagsins fyrir hæfu heilbrigðisstarfsfólki.
Ég hef fengið fyrirspurnir og athugasemdir vegna þess að stjórn Fíh ákvað að taka ekki formlega þátt í samstöðufundi á Austurvelli undir yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði. Stjórn Fíh ákvað að senda bæði forsætis- og utanríkisráðuneytinu áskorun um að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að stöðva dráp og ofbeldi sem á sér stað á Gaza. Auk þess hvatti Fíh öll til þess að sýna samstöðu með fórnarlömbum stríðs, óréttlætis og ofbeldis og að krefjast þess að mannréttindi séu virt.
Fíh hefur að auki ályktað og birt mótmæli og áhyggjur reglulega á opinberum vettvangi vegna þeirra grimmdarverka sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Stjórn Fíh er einhuga um að henni geti aldrei verið heimilt að taka afstöðu fyrir hönd allra íslenskra hjúkrunarfræðinga með öðrum aðila tveggja stríðandi fylkinga og enn síður að krefjast pólitískra refsiaðgerða í nafni íslenskra hjúkrunarfræðinga. Slíkt gæti a.m.k. aldrei gerst án undangenginnar umræðu á vettvangi félagsins. Í þessum efnum voru bæði lög og siðareglur okkar höfð til hliðsjónar og einnig algengasta verklag þeirra fjölmörgu erlendu félaga hjúkrunarfræðinga sem við erum í miklu sambandi við. Mér er það ljóst að það eru ekki allir sáttir við þá ákvörðun stjórnar Fíh að taka ekki formlega þátt í samstöðufundi með Palestínu. Það er sjálfsagt að virða það og hvet ég hjúkrunarfræðinga til þess að halda samtalinu áfram og láta félagið sitt, hlutverk þess og tilgang sig varða.
Í gær sat ég málþing á vegum BHM undir yfirskriftinni Hvers virði er háskólanám? Þar kom fram að háskólamenntun skilar sífellt minni ávinningi fyrir einstaklinga. Það er alvarleg niðurstaða fyrir samfélag sem reiðir sig á sérfræðimenntaða einstaklinga, eins og hjúkrunarfræðinga, til að tryggja velferð, nýsköpun og framþróun þekkingar.
Á málþinginu kom einnig fram að konur þurfa að ná sér í háskólagráðu til að geta staðið jafnfætis körlum með stúdentspróf í launum og sýnir það enn á ný þann veruleika að konur þurfa að leggja meira af mörkum til þess að ná sama virði í launum og karlar. Baráttumálin eru næg fyrir okkur.
Í dag er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Með því að klæðast eða skreyta með gulu sýnum við stuðning við geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir. Þetta er afar mikilvægt málefni og í ár er sérstök áhersla lögð á geðheilbrigði eldra fólks.
Eldra fólk leitar sjaldnar aðstoðar en þeir sem yngri eru en margir finna engu að síður fyrir einmanaleika og félagslegri einangrun. Mikilvægt er að bregðast við þessu, því það er ekki eðlilegt ástand að vera dapur eða einmana þó árin færist yfir.
Það er okkar hjúkrunarfræðinga að vera á varðbergi, grípa inn í og veita viðeigandi stuðning og aðstoð þegar svo ber við.
Það er auðvitað sitthvað fleira búið að vera í gangi eins og samstarfsfundir með stofnunum, tæknimál á skrifstofu, heimsóknir og fyrirlestrar.
Nú fer að koma að uppskeruhátíð okkar hjúkrunarfræðinga. HJÚKRUN 2025 fer fram í Hofi á Akureyri 25.-26. september. Í ár urðu þau tímamót að það seldist upp á ráðstefnuna en yfir 500 hjúkrunarfræðingar eru skráðir en því miður leyfir húsrýmið ekki fleiri þátttakendur. Það gleður mig mjög að sjá hversu mikill áhugi og þátttaka er í þessari uppskeruhátíð fræða og vísinda í hjúkrun. Ég er sannfærð um að aukin réttindi og stofnun Starfsþróunarseturs Fíh, sem varð til í kjölfar síðustu kjarasamninga, hafi þar mikið að segja.
Það eru auðvitað fjölmörg verkefni framundan, sum stór, önnur smærri. Samstarf vegna breytinga á hjúkrunarfræðinámi, ljúka stofnanasamningum, þjónustukönnun Fíh, halda erindi o.fl. en skemmtilegasta verkefnið næstu vikur án efa á Akureyri – sjáumst þar!