
15/09/2025
Nú er komið að síðustu innanlandsferð FEB-ferða þetta sumarið. Um er að ræða gönguferð (hluta úr degi) þann 18. september, með Jónatani Garðarssyni, í Fornasel og Gjásel.
Veðurspáin lofar góðu - ætlar þú ekki að koma með?
Nánar um ferðina:
Gönguferð í Fornasel og Gjásel – haustlitaferð (18. sept. – hluti úr degi)
Mæting er við Haukahúsið við Ásvelli í Hafnarfirði kl. 10:00 fimmtudaginn 18. september. Þaðan er ekið í hóp, á einkabílum eftir Krýsuvíkurvegi rétt upp fyrir iðnaðarhverfið sem þar er að rísa, þar til komið er að malarnámu rétt við rallýkrossbrautina, þar sem gangan hefst. Þar er annaðhvort hægt að velja að ganga gamla Hrauntungustíginn og er þá fyrst farið í gegnum námasvæðið, eða fara aðeins sunnar og ganga eftir ruddum slóða í gegnum Nýjahraun (rann 1151-1180). Farið er að Fjárborginni og síðan um fjárslóða á skógræktarsvæðinu í áttina að Fornaseli. Eftir það er gengið í áttina að Gjáseli. Þegar þangað er komið er staldrað við, og halda til baka að bílunum.
Tímalengd: 3-4 tímar.
Leiðsögumaður: Jónatan Garðarsson.
Erfiðleikastig: 2 skór
Búnaður: Góðir gönguskór, göngufatnaður og stafir. Hver og einn þarf að koma með sitt nesti og drykki.
ATH veðurspáin getur alltaf breyst og er fólk hvatt til að klæða sig eftir veðri.
Verð: 3.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Bókanir fara fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 (sími er opinn frá kl. 10:00-14:00 alla virka daga) eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is.