22/12/2025
🧡 Hérna birtum við 4. tölublaðið af fréttapósti Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem við köllum „Hjartað í HSU". Þetta er safnútgáfa tíðinda af starfsemi okkar frá september, október og nóvember 2025, sem við höfum að megninu til birt nú þegar á vef og samfélagsmiðlum. Einnig er þó alltaf eitthvað um nýtt efni, sem seinna ratar á aðra miðla HSU.
👇 Smelltu á tengil í fyrstu athugasemd (comment) til að skoða Hjartað (PDF) á vef HSU.
/////
Í pistli Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í þessari haustútgáfu Hjartans segir meðal annars:
,,Í þessu tölublaði Hjartans í HSU lítum við yfir einstaklega farsæla og kraftmikla haustmánuði – september, október og nóvember – þar sem markmið okkar um að veita aðgengilega, mannúðlega og örugga heilbrigðisþjónustu hefur skilað sér í verki.
Stærstu tíðindin í haust fólust í opnun Heilsugæslu Uppsveita í byrjun nóvember, sem markar mikilvægt skref í að efla þjónustu á víðfeðmu dreifbýlissvæði og bæta aðgengi fjölskyldna og aldraðra að faglegri heilsugæslu í heimabyggð. Heilsugæslan opnaði formlega 6. nóvember og er þessi áfangi skýr birtingarmynd stefnu HSU um að færa þjónustuna nær fólki og styrkja grunnstoðir heilsugæslunnar.
Einnig fjöllum við um öflugan tækjabúnað, aukna samvinnu við sveitarfélög, nýsköpunarverkefnið Leviosa, framfarir í mæðravernd, vinnu okkar með börnum og metnaðarfulla uppbyggingu mannauðs stofnunarinnar. Hér kynnast lesendur þeim fjölbreyttu verkefnum sem starfsfólk HSU vinnur af fagmennsku, metnaði og stolti í þágu íbúa umdæmisins."