Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heilbrigðisstofnun Suðurlands HSU starfrækir níu heilsugæslur á tíu starfsstöðvum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands veitir heilsugæslu-, sjúkrahús- og öldrunarþjónustu ásamt því að annast sjúkraflutninga.

Þjónustusvæðið nær frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í austri.

🧡 Hérna birtum við 4. tölublaðið af fréttapósti Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem við köllum „Hjartað í HSU". Þetta e...
22/12/2025

🧡 Hérna birtum við 4. tölublaðið af fréttapósti Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem við köllum „Hjartað í HSU". Þetta er safnútgáfa tíðinda af starfsemi okkar frá september, október og nóvember 2025, sem við höfum að megninu til birt nú þegar á vef og samfélagsmiðlum. Einnig er þó alltaf eitthvað um nýtt efni, sem seinna ratar á aðra miðla HSU.

👇 Smelltu á tengil í fyrstu athugasemd (comment) til að skoða Hjartað (PDF) á vef HSU.

/////

Í pistli Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í þessari haustútgáfu Hjartans segir meðal annars:

,,Í þessu tölublaði Hjartans í HSU lítum við yfir einstaklega farsæla og kraftmikla haustmánuði – september, október og nóvember – þar sem markmið okkar um að veita aðgengilega, mannúðlega og örugga heilbrigðisþjónustu hefur skilað sér í verki.

Stærstu tíðindin í haust fólust í opnun Heilsugæslu Uppsveita í byrjun nóvember, sem markar mikilvægt skref í að efla þjónustu á víðfeðmu dreifbýlissvæði og bæta aðgengi fjölskyldna og aldraðra að faglegri heilsugæslu í heimabyggð. Heilsugæslan opnaði formlega 6. nóvember og er þessi áfangi skýr birtingarmynd stefnu HSU um að færa þjónustuna nær fólki og styrkja grunnstoðir heilsugæslunnar.

Einnig fjöllum við um öflugan tækjabúnað, aukna samvinnu við sveitarfélög, nýsköpunarverkefnið Leviosa, framfarir í mæðravernd, vinnu okkar með börnum og metnaðarfulla uppbyggingu mannauðs stofnunarinnar. Hér kynnast lesendur þeim fjölbreyttu verkefnum sem starfsfólk HSU vinnur af fagmennsku, metnaði og stolti í þágu íbúa umdæmisins."

„Við viljum senda jólakveðjur til allra þeirra sem standa vaktina þessi jól, hvort sem það er á vakt fyrir aðra eins og ...
19/12/2025

„Við viljum senda jólakveðjur til allra þeirra sem standa vaktina þessi jól, hvort sem það er á vakt fyrir aðra eins og við erum að gera, eða þeirra sem eru heima á vaktinni þar."

Valey Sara Árnadóttir Workman og Heiða Skúladóttir eru starfsmenn í aðhlynningu á öldrunardeild Ljós- og Fossheima og verða á vakt á aðfangadagskvöld.

Valey Sara segist hlakka til þess að upplifa eitthvað nýtt og fá að gera sitt besta til þess að gera jólin sérstök fyrir fólkið. „Það er gaman hvað er búið að skreyta deildina vel og það hvetur fólk til að staldra við, dást að skreytingum og deila þá oft með okkur jólasögum úr sínu lífi," segir hún og bætir við að það fallegasta við starfið á þessum tíma er að rifja upp gamla tíma með fólkinu okkar og hvernig maður finnur að samverustundirnar með þeim verða nánari. "Drengirnir mínir fá að opna nokkra jólapakka á aðfangadagsmorgun áður en ég fer til vinnu, svo fara þeir með pabba sínum heim til foreldra minna og opna restina þar," en bætir við að þrátt fyrir að þeir séu svekktir að hún sé að vinna skilja þeir vel mikilvægi þess að einhver standi vaktina og sé hjá fólkinu.

Heiða hefur aldrei áður unnið á aðfangadag og hlakkar til að vinna þetta kvöld og finnst fallegt að sjá hvað það þarf lítið til að gleðja á þessum tíma. „Þar sem þetta verða aðeins öðruvísi jól í ár þá breyttum við fjölskyldan hefðunum okkar. Við ætlum að opna pakkana saman á jóladag og borða góðan mat þá. Maðurinn minn og strákarnir mínir ætla njóta saman á aðfangadagskvöld og gera eitthvað sem ég myndi aldrei bjóða uppá að aðfangadag. Sem sagt heimagerð pizza og PlayStation tími!"

Við á HSU erum þakklát fyrir mannauðinn okkar, aðstandendur þeirra og öll þau sem standa vaktina yfir hátíðarnar.

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir fjölskyldufræðingur í Geðheilsuteymi HSU gefur út barnabók um AlzheimerBókin ,,Amma namm...
18/12/2025

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir fjölskyldufræðingur í Geðheilsuteymi HSU gefur út barnabók um Alzheimer

Bókin ,,Amma nammigrís – engin venjuleg amma" eftir Gunnu Stellu er hjartnæm og fyndin barnabók sem segir frá ömmu sem hoppar á trampólíni, gerir kollhnísa og getur borðað ótrúlegt magn af nammi. Það sem er hinsvegar farið að gerast hjá ömmu í dag er að hún farin að gleyma. Amma er með Alzheimer.

Í bókinni eru skemmtilegar og fyndnar sögur af ömmu, byggðar á sönnum atburðum en móðir Gunnu Stellu er með Alzheimer. Sagan er sögð frá sjónarhorni barnabarns sem deilir gleði, hlátri og kærleika með ömmu sinni á einlægan hátt.

Auk þess að vera skemmtileg lesning er bókin fræðandi. Hún útskýrir Alzheimer-sjúkdóminn á einfaldan hátt og hjálpar börnum að skilja hvað það þýðir þegar ástvinur byrjar að gleyma.

Jólapistill forstjóra 🎄Á aðventunni gefst okkur oft tækifæri til að staldra við, líta yfir farinn veg og velta fyrir okk...
18/12/2025

Jólapistill forstjóra 🎄
Á aðventunni gefst okkur oft tækifæri til að staldra við, líta yfir farinn veg og velta fyrir okkur því sem skiptir raunverulegu máli í lífi og starfi. Árið sem er að líða hefur verið viðburðaríkt hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) og líkt og í samfélaginu öllu höfum við fundið fyrir bæði áskorunum og tækifærum sem kalla á samstöðu, seiglu og skýra framtíðarsýn.

Heilbrigðiskerfið er samofið lífi fólks á öllum æviskeiðum og á hverjum degi mætum við fjölbreyttum þörfum einstaklinga og fjölskyldna. Það eru forréttindi að fá að starfa í þjónustu þar sem mannleg tengsl, fagmennska og ábyrgð skipta sköpum. Um leið er ljóst að verkefnin eru krefjandi, breytingar hraðar og kröfur til þjónustunnar sívaxandi. Í þeim raunveruleika skiptir máli að horfa ekki aðeins á hindranir heldur einnig á þau tækifæri sem felast í nýjum lausnum, samstarfi og áframhaldandi uppbyggingu.

Á Suðurlandi heldur íbúum áfram að fjölga og samfélagið þróast hratt. HSU hefur á árinu lagt ríka áherslu á að styrkja innviði sína og þróa þjónustu í takt við þessar breytingar.

Áframhaldandi þróun þjónustu HSU endurspeglar skýra sýn um að færa heilbrigðisþjónustuna nær fólki og styðja við heilsu og vellíðan á öllum æviskeiðum. Þar felast bæði uppbygging þjónustu í heimahúsum, svo sem Heimspítali HSU og nýjungar í öldrunarþjónustu, ásamt aukinni áherslu á forvarnir, lífsstíl og heilsueflingu með eflingu lífsstílsmóttaka.

Með þessari nálgun leggur HSU sitt af mörkum til samfélagsábyrgðar með því að styðja fólk til virkrar þátttöku í eigin heilsu og draga úr þörf fyrir íhlutandi meðferðir til framtíðar. Nýsköpun og markviss þróun þjónustunnar byggir á þekkingu, trausti og öflugu samstarfi starfsfólks og endurspeglar þá sýn að heilbrigðisþjónusta þróist í takt við þarfir fólks og þær aðstæður sem samfélagið býr við hverju sinni. Þessi sýn endurspeglast í nýrri framtíðarstefnu HSU, þar sem áhersla er lögð á að vera tengslanet heilsu og velferðar á Suðurlandi og eftirsóknarverður vinnustaður.

Grunnurinn að allri þessari vinnu er þó fólkið. Starfsfólk HSU er fjölbreyttur og öflugur hópur sem sýnir daglega fagmennsku, sveigjanleika og mannúð við oft krefjandi aðstæður. Ég vil þakka starfsfólki HSU innilega fyrir mikilvægt framlag á árinu og þann metnað sem endurspeglast í störfum þeirra. Án þessa öfluga hóps væri ekki hægt að veita þá þjónustu sem samfélagið treystir á.

HSU nýtur einnig mikils trausts og velvilja í samfélaginu og er það ekki sjálfgefið. Samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga skiptir sköpum og vil ég þakka öllum þeim sem hafa stutt við starfsemina á árinu fyrir gott samstarf og samhug.

Þegar við horfum fram á veginn er ljóst að áskoranir munu áfram fylgja okkur, en jafnframt bíða ný tækifæri. Með sameiginlegu átaki, skýrri framtíðarsýn og áframhaldandi þróun er ég sannfærð um að HSU muni halda áfram að styrkjast sem burðarstoð heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og góður vinnustaður.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Megi hátíðarnar færa ykkur hlýju og góðar stundir með ykkar nánustu og megi nýtt ár færa okkur öllum von og kraft til áframhaldandi verka.

Jóla- og nýárskveðja,

Díana Óskarsdóttir

"Það er gríðarlega mikilvægt að ljósmæður, ásamt öðru starfsfólki HSU sæki sér reglulega fræðslu" segir Sigurlinn Sváfni...
15/12/2025

"Það er gríðarlega mikilvægt að ljósmæður, ásamt öðru starfsfólki HSU sæki sér reglulega fræðslu" segir Sigurlinn Sváfnisdóttir, fósturgreiningarljósmóðir á HSU, sem sótti alþjóðlega ráðstefnu í fósturlækningum í London fyrr í mánuðinum.

Þær Sigurlinn Sváfnisdóttir, fósturgreiningarljósmóðir, og Hugborg Kjartansdóttir, ljósmæðranemi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sóttu alþjóðlega ráðstefnu í London dagana 6.–7. desember.

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá eftirminnilegum sö...
14/12/2025

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá eftirminnilegum sögum frá ferð hennar til Gambíu í Afríku í nóvember s.l. þar sem hún vann á heilsugæslunni á Kubuneh.
Þórunn starfar í Gambíu sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og var ferðin í nóvember hennar fimmta ferð þangað.

🕯️🕯️🕯️Þriðja saga, þriðji í aðventu:

"Musa er 14 ára og býr í Kubuneh ásamt móður sinni og fimm systkinum en faðir hann lést fyrir nokkrum árum síðan. Móðir Musa er heyrnarlaus og hefur ekki getað unnið utan heimilis af þeim sökum og hafa þau því þurft á treysta á tekjur eldri systra hans. Musa er styrktarbarn bæði vegna þess að hann er mjög heyrnarskertur og fjölskyldan þurfti aðstoð fjárhagslega til þess að hann gæti gengið í skóla.

Þegar ég hitti Musa fyrst árið 2023 þá var hann mjög smeykur við okkur en ástæðan fyrir því var sú að hann hafði verið umskorinn af hvítu fólki og var því hræddur um að við myndum gera honum mein. Hann hafði ekki gengið í skóla í einhvern tíma vegna þess að kennararnir höfðu ráðlagt að Musa myndi hætt í skólanum þar sem hann væri ekki að taka neinum framförum í náminu. Musa átti ekki heyrnatæki og þ.a.l. heyrði ekki hvað fór fram í kennslustofunni. Hann var því heima allan daginn að aðstoða móður sína við heimilisstörfin í stað þess að fara í skólann til að læra og umgangast vini sína.

Í Gambíu er starfræktur skóli , St. Johns, fyrir heyrnarskert og heyrnarlaus börn og fórum við þangað ásamt Musa og systur hans til að skoða skólann og láta gera heyrnamælingu á honum. Við veltum fyrir okkur hvort Musa ætti að ganga í þennan skóla í stað skólans sem er inní þorpinu þar sem hann býr. St. Johns er í um 1 klst. fjarlægð frá heimili hans og hann þyrfti því sjálfur að ferðast þangað á hverjum degi. Strætó í Gambíu er ekki eins og við eigum að venjast hér heima. Maður veit aldrei hvort og hvenær strætó kemur, það er troðið inní hann og farþegarnir bókstaflega hanga utan á honum til að ná fari. Musa var þá 12 ára og það var ekki hægt að senda heyrnaskert barn út í þær aðstæður.

Það var því mikilvægt að reyna að gera allt til þess að Musa gæti byrjað aftur í skólanum í þorpinu þar sem hann býr. Heyrnar- og talmeinastöðin á Íslandi gaf Musa heyrnatæki og hittum við starfsfólk skólans og útskýrðum mikilvægi þess að hann væri alltaf með heyrnatækið á sér og myndi sitja framarlega í skólastofunni. Auk þess yrði að fylgjast með því að hann væri að taka framförum. Musa fékk skólabúning, tösku og skó og brosti út að eyrum fyrsta skóladaginn.

Þegar ég fór aftur til Gambíu 2 árum seinna fór ég í skólann og heimsótti Musa. Hann var þá kominn með annan kennara, nýr skólastjóri og sat aftast í skólastofunni sem mér fannst mjög skrýtið. Þegar ég ræddi við starfsfólks skólans um hvernig gengi hjá Musa þá vissu þau ekki af því að hann væri heyrnaskertur. Það virðist sem þessar upplýsingar um Musa hafi ekki skilað sér þegar nýtt starfsfólk tók við. Musa var með heyrnatækin ofan í tösku því þau voru batteríslaus.

Lífið er ekki alltaf einfalt í Afríkunni, maður getur alveg orðið stundum svekktur á því hvernig hlutirnir eru. Hvernig stendur t.d á því að starfsfólk skólans viti ekki að þau eru með heyrnaskertan einstakling í skólanum? Ég fór yfir þetta með Musa, fjölskyldunni og starfsfólki skólans og ef honum vantaði eitthvað þá ætti hann að leita á heilsugæsluna. Í þessari ferð fékk hann nýjan skólabúning sem saumaður var af Musa nafna hans á saumastofunni sem Kubuneh verslun rekur. Fjölskyldan fékk líka hrísgrjón, olíu og lauk sem mun endast í einhverjar vikur og léttir þannig undir rekstri heimilisins.

Það er von mín að Musa nái að klára grunnskóla og að hann geti í framhaldi haldið áfram námi. Það er mikilvægt að hann nái að gera það til að geta framfleytt sér í framtíðinni. Ein mikilvægasta leiðin úr þessari fátækt sem ríkir í Afríku er menntun og er Kubuneh verslun að styrkja marga krakka og fullorðna til náms. Til að fylgjast með eða styrkja starfið er hægt að fara inná heimasíðuna sem er í fyrstu athugasemd"

"Við gefum ekki lyf, læknum ekki fólk, en gerum allt annað!"Tækni- og viðhaldsteymið eru ómissandi hlekkur í starfsemi H...
12/12/2025

"Við gefum ekki lyf, læknum ekki fólk, en gerum allt annað!"

Tækni- og viðhaldsteymið eru ómissandi hlekkur í starfsemi HSU, og vinna þvert á allar deildir og starfsstöðvar. Þeir hafa umsjón með fasteignum, sjá um allt viðhald, eru með bílamál á sínum snærum, passa að moka snjó og salta í kringum stofnunina og áfram mætti lengi telja. Listinn er nærri ótæmandi og er einkenni þeirra hvað þeir eru samheldið og traust teymi.

Hér má sjá hluta af teyminu sem vinnur á Selfossi, þar sem þeir voru gripnir í myndatöku áður en þeir þutu aftur af stað að leysa næsta vandamál.

Í gær var hátíðarlegt á hjúkrunarheimilinu Móbergi þegar Día María, starfsmaður í aðhlynningu, söng jólalög fyrir heimil...
10/12/2025

Í gær var hátíðarlegt á hjúkrunarheimilinu Móbergi þegar Día María, starfsmaður í aðhlynningu, söng jólalög fyrir heimilisfólk. Bæði starfsfólk og heimilisfólk voru í jólapeysum eða prúðbúin og boðið var upp á jólaglögg eða jólaöl. Jólatréð er komið upp á sinn stað í stofunni og augljóst er að jólaandinn er að færast yfir hjúkrunarheimilin okkar eins og aðra staði.

Munum að njóta aðventunnar með þeim sem okkur þykir vænt um, sköpum fallegar stundir saman og hlúum hvort að öðru.

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá fjórum eftirminnil...
07/12/2025

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá fjórum eftirminnilegum sögum frá ferð hennar til Gambíu í Afríku í nóvember s.l. þar sem hún vann á heilsugæslunni á Kubuneh.
Þórunn starfar í Gambíu sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og var ferðin í nóvember hennar fimmta ferð þangað.

🕯️🕯️Önnur saga, annar í aðventu:

"Það getur oft verið erfitt að ná góðri sjúkrasögu þegar sjúklingar leita á heilsugæsluna. Við þurfum því oftast að hafa innfæddan hjúkrunarfræðing með okkur sem getur túlkað. Í þeirra menningu tíðkast ekki að spyrja sjúklinginn spjörunum úr eins og við gerum hér heima og sérstaklega ekki meðal eldri hjúkrunarfræðinga. Það getur því verið mikil áskorun eins og raun bar vitni dag einn á heilsugæslunni þegar mikið var að gera og inn kom ung kona í fylgd karlmanns sem við gerðum ráð fyrir að væri eiginmaður hennar. Þau töluðu ekki ensku og því talaði eldri hjúkrunarfræðingurinn á vaktinni við þau.

Sjúkrasagan sem við fengum þennan dag var að hún hafði eignast fyrsta barnið sitt fyrir þremur dögum á spítala í borginni og barnið hafði fæðst andvana. Móðirin sagðist vera 18 ára, hún var slöpp, með hita og bólgu í brjóstinu. Eftir að hafa tekið lífsmörk og að ég hélt góða sögu, kom í ljós að annað brjóstið var mjög bólgið og mun stærra en hitt. Það var eitthvað sem sagði mér að saga konunnar og eðli veikindanna færu ekki alveg saman.

Á heilsugæslunni er ekki hægt að taka blóðprufur til að athuga með CRP (sem greinir bakteríusýkingar), ekki eru til sýklalyf til að að gefa í æð né sónar til að skoða hvort það væri graftarpollur í brjóstinu. Sýklalyfin sem til eru á heilsugæslunni eru samsett og því ekki eins og við eigum að venjast hér heima. Það var því ekki góð tilfinning að senda hana heim með sýklalyf í töfluformi sem ég vissi að væru líklega ekki nægilega sterk til að ráða niðurlögum á þessari sýkingu. Hún fór því heim eftir að hafa fengið ráðleggingar og við ítrekuðum við þau að koma aftur daginn eftir ef hún væri ekkert betri.

Tveimur dögum seinna kom hún aftur á heilsugæsluna enn veikari, með háan hita og gröftur lak út um g*t á brjóstinu. Það var því ekkert annað að gera en að vísa henni á sjúkrahús. Við erum svo lánsöm að hafa kynnst lækni sem starfar á einkareknu sjúkrahúsi inní borg. Hún heitir Safia og fengum við leyfi til að senda hana þangað með sjúkrabíl. Það var vel tekið á móti henni þar, hún fékk sýklalyf í æð og var send í aðgerð samdægurs.

Við fórum síðan nokkrum dögum seinna og heimsóttum hana og þá kom í ljós að hún hafði fætt heima og að barnið hafði lifað í einhverja daga. Hún býr núna í næsta þorpi við Kubuneh og karlmaðurinn sem hafði fylgt henni á heilsugæsluna var ekki maðurinn hennar heldur frændi.

Hún hafði búið inni í borg en flúið eiginmann sinn sem hafði beitti hana ofbeldi. Það var sorglegt til þess að vita að barnið hafði fæðist lifandi en dáið því það virðist ekki hafa fengið nægilega mikið að drekka og lést því nokkra daga gamalt. Móðirin hafði fætt án aðkomu heilbrigðisstarfsmanns og ekkert eftirlit með líðan móður og barns eftir fæðinguna og því fór sem fór. Þessi unga kona lá inni á spítala í viku og allur kostnaður við það greiddur af Kubunehverslun.

Hún kemur nú þrisvar sinnum í viku á heilsugæsluna í umbúðaskipi og hefur mestar áhyggjur af því að eiginmaður sinni komi til að sækja hana og neyði hana til að flytja aftur til sín. Heilsugæslan mun reyna að gera allt til að styðja hana og fylgjast með að hún komi reglulega og nái aftur bata.”

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá fjórum eftirminnil...
30/11/2025

Yfir aðventuna mun Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, segja frá fjórum eftirminnilegum sögum frá ferð hennar til Gambíu í Afríku í nóvember s.l. þar sem hún vann á heilsugæslunni á Kubuneh.
Þórunn starfar í Gambíu sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og var ferðin í nóvember hennar fimmta ferð þangað.

🕯️Fyrsta saga, fyrsti í aðventu:

"Þegar við mætum annan daginn okkar var frumbyrja í fæðingu, komin með 8 í útvíkkun. Það var einhvern veginn ekkert tilbúið á fæðingarstofunni og ég fór því að gera allt klárt. Við hlustuðum hjartslátt og heyrðum bara 30-40 slög/mín (hjartsláttur á að vera 110-160 slög/mín).

Ég fann öndunarbelg til að hafa við hendina ef við skyldum þurfa nota hann en það var enginn maski. Við förum því að leita út um allt og fundum loks einn sem var samt lélegur. Konan var síðan sem betur fer fljót að klára útvíkkun og ljósmóðirin klippti hana til að reyna að flýta fæðingunni.

Stúlkan fæðist slöpp, var bara með hjartslátt, og sýndi engin önnur viðbrögð. Við förum í það að örva hana en lítið gerðist. Við færðum hana yfir á annan bekk og þegar ég reyndi að blása í hana með öndunarbelgnum féll maskinn saman og klessist bara ofan í andlitið á stúlkunni. Allt plast í þessum hita skemmist mjög fljótt og því var ekkert hægt að nota hann og því þurfti ég sjálf að blása nokkrum sinnum í stúlkuna til að koma lofti ofaní hana.

Hún tók síðan við sér hægt og rólega, andaði, fór að fá lit og hreyfa sig. Ásta hjúkrunarfræðingur sem var með mér náði í súrefnisvél og við gátum gefið henni súrefni. Við færðum hana síðan til móður sinnar eins fljótt og hægt var til að halda á henni hita. Þegar hún var tilbúin fór hún síðan á brjóst hjá móður sinni. Þetta fór allt vel en ég ræddi við ljósmóðurina eftir þetta um mikilvægi þess að hafa allt tilbúið á fæðingarstofunni þegar kona væri í fæðingu.

Við komumst að því eftir á að móðirin var með grænt legvatn og fórum við líka yfir það að konur með einhverja áhættuþætti eiga að flytjast á hærra þjónustustig. Daginn eftir fórum við síðan í það að taka til og koma skipulagi á allt og þá fundum við þessa líka fínu öndunarbelgi."

Næsta saga kemur sunnudaginn næsta, annan í aðventu.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslunnar á Selfossi tóku þátt í vinnustofu í síðustu viku þar sem meginmarkmiði...
27/11/2025

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslunnar á Selfossi tóku þátt í vinnustofu í síðustu viku þar sem meginmarkmiðið var að brjóta upp hefðbundin vinnudag og vinna sameiginlega að lausnum til að bæta þjónustu, efla starfsánægju og draga úr álagi í starfi.

Gæðateymi HSU stýrði vinnustofunni sem einkenndist af jákvæðni og öflugri þátttöku og var bersýnilegt hversu sterkur og samheldinn hópurinn er. Fyrsta umbótaverkefni vinnustofunnar var strax afgreitt næsta morgun þegar ný brauðrist var sett á kaffistofu starfsfólksins – táknræn og umsvifalaus byrjun á víðtækara umbótastarfi sem unnið verður áfram af gæðateymi, stjórnendum og starfsfólki.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslunnar á Selfossi sinna daglega móttöku skjólstæðinga, bráða- og slysaþjónustu, vaktþjónustu, skólaheilsugæslu, heimahjúkrun, mæðra- og ungbarnavernd, hjúkrunar- og sálfræðiþjónustu ásamt hjúkrunarþjónustu á Litla-Hrauni.

Address

Við Árveg
Selfoss
800

Telephone

+3544322000

Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Heilbrigðisstofnun Suðurlands posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Share

Share on Facebook Share on Twitter Share on LinkedIn
Share on Pinterest Share on Reddit Share via Email
Share on WhatsApp Share on Instagram Share on Telegram

Category