17/03/2024
"Þú færð meira út úr því að tala við steinvegg en að reyna að ræða við narsissista." .. Sumt fólk er bara, því miður, ekki hægt að tala við vegna þess það GETUR EKKI sett sig í þín spor. Það hefur ekki þennan eiginleika sem kallaður er empathy eða samhygð.
--
Verkfæri narsissista er gaslýsing og hún virkar svona:
Þegar þú reynir að ræða við narsann (stytting á narissisti) snýr hann ÖLLU við.
Ef þú gagnrýnir þá, spyrð þá út í það sem þeir sögðu (confront them), reynir að leysa vandamál með þeim, eru þeir fljótir að snúa því upp á þig og áður en þú veist af ert ÞÚ vandamálið. Og það er nú þannig hjá narsanum að hvað sem fer illa er ÞÉR að kenna og meira að segja þegar þeir beita ofbeldi, þá er það eitthvað sem ÞÚ gerðir. Það versta er að oft er sá sem verður fyrir gaslýsingunni farinn að trúa narsanum, því eftir langa samveru með narsa er örugglega búið að höggva verulega í sjálfstraustið.
Þessar setningar eru rauð flögg að þú sért í samskiptum við narsissista.
"Ég sagði þetta aldrei"
"Ég man ekki eftir að hafa sagt þetta"
"Ég er ekki reiður"
"Hvers vegna ertu svona viðkvæm?"
"Þetta er ekki svona stórt mál"
...
Vil taka það fram að við erum ÖLL með narsissistísk einkenni - erum á narsissísku "rófi" - ef svo má að orði komast. En svo eru sumir sem tékka í öll boxin og það er hreinlega hættulegt fólk. Narsissismi er að mínu mati, einhvers konar heilaskaði sem því miður verður til þegar börn fá afbrigðilegt uppeldi; vanrækt andlega eða "ofrækt" - þetta eru eins og blóm sem fá ekki vatn eða eru ofvökvuð. Þess vegna má alveg vorkenna narsanum, en alveg eins og við myndum ekki leyfa manneskju í hjólastól keyra yfir okkur - megum við heldur ekki "leyfa" narsanum að valta yfir okkur vegna þess að við sjálf höfum skilning á hvers vegna hann er eins og hann er. :-(
Ég væri ekki að skrifa um þetta nema vegna þess að þetta eru aðstæður sem ég hef ítrekað upplifað. Á seinni árum helst í yfirmönnum, enda hef ég kynnt mér það að forstjórar/framkvæmdastjórar og aðrir leiðtogar eru oft með mikil narsissistísk einkenni. Í einni grein er talað um "clergy" eða presta. Það er þessi þörf á viðurkenningu, aðdáun o.s.frv. sem er sammannleg - en gengur í öfgar hjá narsanum.
Fólk sem hefur veikst illilega af myglu er óvenju næmt þegar það kemur inn í húsnæði þar sem er vottur af myglu. Það er þess vegna, að í dag er ég fljót að koma mér úr aðstæðum - eða hreinlega veikjast þegar ég kem í návígi við fólk sem sýnir narsissíska hegðun og þekki þessi rauðu flögg mjög vel.
Ég reyni alltaf að finna tilgang með því sem kemur fyrir mig í lífinu, - og ég tel að það sé rétt að útskýra narsissismann því hann er eitraður (eins og myglan) og það hlýtur að vera rétt að vara við eitri. Tek fram að sumir virðast þola mygluna betur en aðrir - og það er gott mál, en það er ekki hægt að ásaka þau sem eru næm fyrir henni fyrir þessa næmni.
Þetta er afar sorglegt í mannlegum samskiptum og því miður ber fólk þess sjaldan fullar bætur - að hafa lent í þessum samskiptum. Tala nú ekki um að hafa alist upp sem börn við þessar aðstæður.